Framlengdi við Fram

Guðmundur Magnússon skrifaði undir tveggja ára samning við Framara.
Guðmundur Magnússon skrifaði undir tveggja ára samning við Framara. Ljósmynd/Fram

Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Magnússon hefur framlengt samning sinn við Fram. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag.

Samningurinn er til næstu tveggja ára og gildir út tímabilið 2023 en Guðmundur, sem er þrítugur, er uppalinn hjá félaginu.

Hann hefur einnig leikið með Grindavík, ÍBV, Víkingi frá Ólafsvík, Keflavík og HK á ferlinum en alls á hann að baki 71 leik í efstu deild þar sem hann hefur skorað átta mörk.

„Knattspyrnudeild Fram fagnar því að hafa Guðmund áfram í sínum röðum og það er ljóst að reynsla hans og gæði koma til með að nýtast félaginu vel á næstu árum í deild þeirra bestu,“ segir meðal annars í tilkynningu Framara.

Fram vann 1. deildina með miklum yfirburðum á síðustu leiktíð og leikur því í úrvalsdeildinni á komandi keppnistímabili.

 

mbl.is