Fyrsta markið kemur í París og verður jólagjöfin í ár

Ásta Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks sendir boltann fram völlinn í leiknum …
Ásta Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks sendir boltann fram völlinn í leiknum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Ásmundur Arnarsson, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, var svekktur með 0:3 tapið fyrir Real Madríd í Meistaradeild Evrópu á Kópavogsvellinum í kvöld en þó ánægður með spilamennsku Blika í leiknum, sem hann sagði mun betri en í 0:5 tapinu gegn sama liði ytra í október síðastliðnum.

„Okkar fyrstu viðbrögð eru auðvitað svekkelsi þannig lagað séð. Ég var ánægður með spilamennsku liðsins. Ef maður ber saman þessa tvo leiki, fyrri og seinni, þá er ég miklu ánægðari með frammistöðuna í dag heldur en úti.

Við vorum vel skipulagðar og þær voru ekki mikið að opna okkur en á móti var þá svekkjandi að fá á sig mark eftir fast leikatriði, horn, og svo frekar ódýrt víti,“ sagði Ásmundur á blaðamannafundi eftir leik.

Spurður nánar út í vítaspyrnuna sem var dæmd á Hafrúnu Rakel Halldórsdóttur sagði hann: „Maður hefði alveg viljað sjá hana [dómarann] sleppa þessu en hún rétti aðeins út fótinn og það var einhver örlítil snerting þannig að það er alveg hægt að réttlæta þetta víti en svo er líka hægt að réttlæta þetta í hina áttina, sem ég hefði viljað sjá.“

Ásmundur kvaðst svekktur yfir því að Blikar hafi ekki náð að skora í kvöld, en í síðari hálfleik fengust nokkur góð færi til þess. „Ég var ánægður með seinni hálfleikinn, við komum af krafti inn í hann og það var mikill hugur í leikmönnum. Mest svekkjandi var samt að setja ekki að minnsta kosti eitt mark í dag.“

Vigdís kom inn með mikinn kraft

Blikar léku umtalsvert betur í síðari hálfleik en í þeim fyrri. Hverju sætti? „Ég myndi segja að það hafi verið tvær meginástæður fyrir því. Það var svolítið mikill vindur á annað markið, hann stýrði svolítið hlutunum, og svo kom Vigdís [Lilja Kristjánsdóttir] inn með mikinn kraft og það hjálpaði okkur til þess að sækja betur á þær.“

Vigdís Lilja er aðeins sextán ára gömul en var mjög lífleg eftir að hafa komið inn á í hálfleik. „Ég er bara hrikalega ánægður með Vigdísi Lilju og ég get alveg sagt það að hún kom alveg vel til greina í byrjunarliðið í dag. Hún hefur verið að standa sig vel undanfarið í leikjum og á æfingum.

Við vitum alveg að það er mikill kraftur í henni og það sýndi sig svo sannarlega í dag. Það var virkilega gaman að sjá hana kom inn og leiða liðið og það hefði verið gaman ef það hefði endað með marki,“ bætti Ásmundur við um Vigdísi Lilju.

Lokaleikurinn gegn PSG

Lokaleikur Breiðabliks í Meistaradeild Evrópu mun fara fram eftir rúma viku gegn Frakklandsmeisturum Parísar Saint-Germain í París. Hvernig verður undirbúningnum háttað fyrir þann leik?

„Ég held að það verði líklega framhald á því sem við höfum verið að gera. Við erum aftur að fara að spila við geysilega öflugan andstæðing og við þurfum aftur að spila þéttan og skipulagðan varnarleik og reyna að beita hraðaupphlaupum og nýta sóknirnar okkar eins vel og við getum.

Það verða svipuð markmið og svipaðar áherslur. Ég treysti því og trúi að við fáum allavega fyrsta markið okkar rétt fyrir jól í París, það verður jólagjöfin í ár,“ sagði Ásmundur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert