Getum ekki kvartað yfir kuldanum

Kristín Dís Árnadóttir, lengst til vinstri, fylgist með Taylor Ziemer …
Kristín Dís Árnadóttir, lengst til vinstri, fylgist með Taylor Ziemer skalla boltann frá í leiknum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Kristín Dís Árnadóttir, varnarmaður Breiðabliks, sagði að liðið hefði átt að gera betur í að verjast fyrsta marki Real Madríd í 0:3 tapi gegn spænska liðinu í Meistaradeild Evrópu á fannbörðum Kópavogsvelli í kvöld.

Fyrsta mark gestanna frá Madríd kom í kjölfar hornspyrnu sem var tekin stutt. „Það var svekkjandi að fá á sig þetta mark eftir fast leikatriði, sem var eitt af því sem við lögðum áherslu á að hafa í lagi.

Ég var ánægð með seinni hálfleikinn þar sem við vorum að reyna að spila og halda í boltann við erfiðar aðstæður. En fyrst og fremst er ég bara svekkt,“ sagði Kristín Dís á blaðamannafundi eftir leik.

Annað mark Real Madríd kom úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir að Kosovare Asllani féll við eftir smávægilegu snertingu frá Hafrúnu Rakel Halldórsdóttur. Kristín Dís sagði vítaspyrnuna hafa verið ódýra þó hægt væri að réttlæta dóminn.

Hún er klókur leikmaður og er ekki að gera þetta í fyrsta skiptið. Það er auðvelt að réttlæta dóminn samt.

Spurð út í aðstæðurnar, þar sem fannfergi var mikið og kuldinn mikill, sagði hún: „Það var mjög kalt, en það var mjög kalt fyrir þær líka þannig að við getum ekkert verið að kvarta yfir því.“

Á blaðamannafundinum var Kristín Dís spurð út í það hvort hún væri á leið út í atvinnumennsku að loknum lokaleiknum í B-riðli Meistaradeildarinnar eftir rúma viku.

„Nei ekki eins og er allavega. Það er ekkert komið í ljós. Ég ætla bara að klára þennan leik gegn PSG og sjá svo hvað gerist. Það er alveg eitthvað búið að koma upp en ég ætla bara að bíða og sjá,“ sagði hún.

Kristín Dís sagði Blika svekkta með að vera ekki enn búna að skora í riðlakeppninni og að stefnan sé sett á að skora fyrsta mark liðsins gegn París Saint-Germain í riðlinum, og vísar til þess að liðinu hafi tekist að skora gegn PSG í París í Meistaradeildinni fyrir tveimur árum.

„Við skoruðum mark í París síðast. Við ætlum okkur að skora mark og ná í stig. PSG er náttúrlega eina liðið í keppninni sem er ekki enn búið að fá á sig mark þannig að það er kannski aðeins meira en að segja það! En við viljum ná í góð úrslit og fá góða reynslu,“ sagði hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert