Madríd í átta liða úrslit eftir sigur á Breiðabliki

Hildur Antonsdóttir sækir að Teresu Abelleira hjá Real Madrid í …
Hildur Antonsdóttir sækir að Teresu Abelleira hjá Real Madrid í snjónum á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Real Madríd hafði betur gegn Breiðabliki, 3:0, þegar liðin mættust í 5. umferð B-riðils Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna á Kópavogsvellinum við ansi krefjandi vetraraðstæður í kvöld.

Í fyrri hálfleik réðu gestirnir frá Madríd lögum og lofum og tóku forystuna eftir tíu mínútna leik.

Þær tóku þá hornspyrnu stutt, Teresa Abelleira komst upp hægri kantinn, lagði boltann út á Kenti Robles sem skaut eða gaf fyrir á nærstöngina þar sem Kosovare Asllani var mætt og lagði boltann laglega upp í samskeytin nær af stuttu færi.

Blikar áttu í vandræðum með að tengja saman sendingar á meðan Real Madríd hélt boltanum vel og skapaði sér góð færi. Telma Ívarsdóttir í marki Breiðabliks var hins vegar vel á verði og bjargaði nokkrum sinnum með frábærum markvörslum.

Þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik braut Hafrún Rakel Halldórsdóttir á Asllani innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Asllani steig sjálf á vítapunktinn og skoraði af gífurlegu öryggi niður í bláhornið þar sem Telma fór í rangt horn.

Staðan var því 2:0 þegar leikmenn hlupu til búningsherbergja til þess að hlýja sér í leikhléi.

Síðari hálfleikur var talsvert rólegri framan af en þegar leið á hann fóru Blikar að ná upp betra spili og sköpuðu sér nokkur prýðis færi.

Real Madríd var vissulega meira með boltann í síðari hálfleik en sköpuðu sér umtalsvert færri færi í síðari hálfleiknum samanborið við fyrri hálfleikinn.

Þriðja markið kom þó seint í leiknum, á 82. mínútu. Það skoraði Claudia Zornoza þegar hún fylgdi eftir af stuttu færi í kjölfar þess að Telma Ívarsdóttir hafði varið skot af enn styttra færi frá Nahikari García.

3:0 reyndust lokatölur og Real Madríd er þar með búið að tryggja sér annað sæti B-riðils og þar með sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Breiðablik 0:3 Real Madríd opna loka
90. mín. Real Madríd fær hornspyrnu +2
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert