Segir Aron og Eggert hafa bent hvor á annan

Aron Einar Gunnarsson fyrir miðju og Eggert Gunnþór Jónsson til …
Aron Einar Gunnarsson fyrir miðju og Eggert Gunnþór Jónsson til hægri. mbl.is/Golli

„Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar ég fékk símtal frá vini mínum út af þessu atviki sem þú lentir í 2010.“ Svona hljóða skilaboð sem þolandi í meintu kynferðisbrotamáli knattspyrnumannanna Arons Einars Gunnarssonar og Eggerts Gunnþórs Jónssonar fékk send frá vini leikmannanna tveggja.

Þetta kemur fram í skýrslu úttektarnefndar ÍSÍ sem var opinberuð í höfuðstöðvum ÍSÍ í Laugardal í gær.

Aron Einar, sem hefur verið fyrirliði íslenska karlalandsliðsins undanfarinn áratug, og Eggert Gunnþór, sem leikur með FH, hafa verið sakaðir um nauðgun en atvikið á að hafa átt sér stað eftir landsliðsverkefni í Kaupmannahöfn árið 2010.

Ekki fengið hljómgrunn hjá Guðna

Tengdamóðir þolanda, Margrét Elíasdóttir, hefur starfað hjá KSÍ í 25 ár og greindi Guðna Bergssyni, fyrrverandi formanni sambandsins, fyrst frá málinu.

Í skýrslu úttektarnefndarinnar kemur fram að málið hafi ekki fengið hljómgrunn hjá Guðna og því hafi Margrét sent öllum starfsmönnum og stjórnarmönnum KSÍ ábendingu um málið í tölvupósti ásamt meðfylgjandi skilaboðum sem sjá má hér fyrir neðan en í skýrslu úttektarnefndarinnar er þolandi í máli Arons og Eggerts kallaður Z.

Sæl [Z],

Ég er búinn að skrifa þessi skilaboð cirka 100 sinnum og stroka út því ég veit í rauninni ekkert hvað ég get sagt. Ég trúi samt á það að viðurkenna mistök sín og taka ábyrgð og ætla þess vegna að henda þessu til þín.

Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar ég fékk símtal frá vini mínum út af þessu atviki sem þú lentir í 2010. Þetta voru vinir mínir sem gerðu þér þetta. Það hafði spurst út að þú ætlaðir að kæra þá og vinahópurinn átti að fara á fullt að reyna að koma í veg fyrir það til þess að skemma ekki þeirra mannorð.

Alger bilun ég veit. Þessir strákar höfðu allt valdið í höndum sér. Frægð og frama, peninga, vinsældir og voru ekkert eðlilega sannfærandi þegar þeir sögðu að þú hefðir viljað þetta allan tímann og að þetta væri kjaftæði. Þeir gátu ekki einu sinni staðið saman heldur bentu á hvorn [sic] annan og sögðu að hinn hefði gert þetta.

Ég var algerlega heilaþvegin og tók með þeim stöðu. Þú dróst þetta svo til baka og þeir héldu bara áfram með lífið einsog ekkert hefði ger[s]t, dauðfegnir að þurfa ekki að taka neina ábyrgð. Ég hef svo oft hugsað um þetta atvik, og nú mörgum árum seinna þegar ég er búin að slíta öllum mínum samskiptum við þá fyrir löngu út af svo mörgum furðulegum atvikum þar sem ég var neydd til að ljúga fyrir þá og taka með þeim stöðu þá sé ég [...]

Mér finnst ógeðslegt að hugsa til þess hvernig ég tók afstöðu með þeim gegn þér. Mig langaði bara að biðja þig afsökunar þó að þú hafir fullan rétt á að kasta því út á hafsauga. Ég er stolt af þér að koma með þetta fram, ég trúi þér og ég stend með þér ef þú ætlar með þetta mál lengra.

mbl.is