Vanda: Hefði farið að gráta

Eiður Smári Guðjohnsen lét af störfum sem aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins …
Eiður Smári Guðjohnsen lét af störfum sem aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var algjörlega buguð eftir þetta og mjög sorgmædd í hjartanu,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun en þar ræddi hún meðal annars brotthvarf Eiðs Smára Guðjohnsens úr starfi aðstoðarþjálfara karlalandsliðsins.

Eiður Smári lét nokkuð óvænt af störfum hjá Knattspyrnusambandinu 23. nóvember en hann var ráðinn aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í desember á síðasta ári.

Hann tók við liðinu ásamt Arnari Þór Viðarssyni en Arnar verður áfram þjálfari liðsins og er nú í leit að nýjum aðstoðarmanni.

Mbl.is greindi frá því að ástæðan fyrir brotthvarfi Eiðs Smára væru vandamál hans utan vallar en hann fékk áminningu í starfi frá sambandinu síðasta sumar þegar myndband náðist af honum í annarlegu ástandi í miðbæ Reykjavíkur.

„Þetta var hrikaleg leiðinlegt í alla staði og ég hefði í raun bara farið að gráta held ég ef ég hefði verið að mæta í viðtöl eftir þetta,“ sagði Vanda.

„Ég bað þess vegna Ómar Smárason um að tala við fjölmiðla því ég þurfti í raun bara að ná mér aðeins eftir þetta. Ég svaf nánast ekkert þessa nótt og treysti mér hreinlega ekki í það að svara fyrir þetta.

Þegar dagurinn var liðinn var í raun búið að svara fyrir þetta og ekkert meira um það að segja enda var ég ekki að fara tjá mig eitthvað sérstaklega um persónuleg mál tengd einstaklingum,“ bætti Vanda við í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert