Gamla ljósmyndin: Lét staðar numið á árinu

Morgunblaðið/Einar Falur Ingólfsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Víkingurinn Kári Árnason lagði knattspyrnuskóna á hilluna á árinu sem er að líða eftir farsælan feril. Kári lauk ferlinum sem Íslands- og bikarmeistari með Víkingi og var valinn í landsliðið á meðan hann kærði sig um. 

Kári var á heildina litið í landsliðinu í sextán ár en fyrsta landsleikinn lék hann í mars árið 2005 gegn stórri knattspyrnuþjóð. Var það vináttulandsleikur gegn Ítalíu ytra sem endaði með jafntefli, 0:0, en segja má að fall hafi verið fararheill á landsliðsferli Kára. Hann kom inn á sem varamaður í leiknum og var rekinn af leikvelli þremur mínútum síðar.

Meðfylgjandi mynd er tekin á Laugardalsvellinum árið eftir eða sumarið 2006. Ísland lék þá vináttulandsleik gegn Spáni í ágúst og gerðu liðin markalaust jafntefli. Á meðfylgjandi mynd er Kári með boltann en Raúl fyrirliði Spánverja sækir að honum en svo vildi til að leikurinn var 100. landsleikur Raúls fyrir Spán. Myndina tók Einar Falur Ingólfsson og birtist hún í íþróttablaði Morgunblaðsins hinn 16. ágúst 2006. 

Kári lék á miðjunni gegn Spánverjum en ekki í miðverðinum þar sem hann átti eftir að eiga fast sæti í mörg ár. Til dæmis þegar Ísland komst á EM 2016 og HM 2018.  

Kári lék alls 90 A-landsleiki fyrir Ísland og skoraði 6 mörk. Hann lék með Víkingi, Djurgården og Malmö í Svíþjóð, AGF og Esbjerg í Danmörku, Plymouth og Rotherham á Englandi, Omonia á Kýpur, Aberdeen í Skotlandi og Genclerbirligi í Tyrklandi á ferlinum en einnig Gonzaga og Adelphi í bandaríska háskólaboltanum, NCAA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert