Hann á framtíðina fyrir sér

Arnór Ingvi Traustason tapaði fyrir Guðmundi Þórarinssyni og félögum í …
Arnór Ingvi Traustason tapaði fyrir Guðmundi Þórarinssyni og félögum í Bandaríkjunum. AFP

Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður New England Revolution í bandarísku atvinnumannadeildinni, staðfesti á blaðamannafundi eftir 1:1-jafnteflið við Úganda í vináttuleik í An­ta­lya í Tyrklandi í dag að hann verði áfram hjá félaginu á næsta tímabili.

Houston Dynamo valdi Þor­leif­ Úlfars­son í nýliðavali atvinnumannadeildarinnar í gær og Arnór er spenntur að fá leikmanninn unga í deildina. „Ég horfði á valið og vissi að hann væri að fara til Houston. Ég horfði þangað til Houston átti valrétt. Maður fylgdist með fréttum úti og hann var að standa sig. Hann á framtíðina fyrir sér,“ sagði Arnór Ingvi.

New England var með bestan árangur allra liða í deildinni á síðustu leiktíð en tapaði að lokum fyrir Guðmundi Þórarinssyni og félögum í New York City í umspili. Að lokum fór New York alla leið og Guðmundur varð fyrsti Íslendingurinn til að verða bandarískur meistari í fótbolta.

„Ég óskaði Gumma til hamingju með sigurinn eftir leikinn. Ég hvíslaði að honum að verða fyrsti Íslendingurinn til að vinna þetta. Þeir voru með rosalega gott lið og ég samgleðst Gumma mjög mikið,“ sagði Njarðvíkingurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert