Heiður að vera fyrirliði landsliðsins

Arnór Ingvi Traustason var fyrirliði íslenska landsliðsins í fyrsta skipti …
Arnór Ingvi Traustason var fyrirliði íslenska landsliðsins í fyrsta skipti í dag. AFP

„Þessi leikur var kaflaskiptur. Við byrjum sterkt og náðum þessu marki en svo fórum við aftur á hælana og gerðum ekki það sem við ætluðum að gera,“ sagði Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu, á blaðamannafundi eftir 1:1-jafntefli við Úganda í vináttuleik í Antalya í Tyrklandi í dag.

Við vorum þokkalega sprækir í seinni hálfleik, fórum í návígi og vorum að vinna þessa seinni bolta. Það mikið um langa bolta hjá þeim og þeir gerðu þetta erfitt fyrir okkur. Við leyfðum þeim það dálítið, því við pressuðum þá ekki nægilega mikið. Það var okkur að kenna að stýra ekki leiknum betur gegn annars fínu liði,“ bætti hann við.

Arnór var fyrirliði Íslands í leiknum í fyrsta skipti á ferlinum. „Þetta var skemmtilegt, ég hef aldrei verið fyrirliði áður og það var heiður að vera fyrirliði landsliðsins. Ég er vanur því að hafa menn eins og Kára, Ragga og Aron til að öskra mann í gang en núna þarf maður sjálfur að axla meiri ábyrgð. Ég er meira en tilbúinn til þess og tilbúinn til að hjálpa ungu leikmönnunum,“ sagði Arnór Ingvi, sem lék sinn 42. A-landsleik í dag.

mbl.is