Markvörðurinn meiddist á æfingu

Arnar Þór Viðarsson
Arnar Þór Viðarsson Ljósmynd/Robert Spasovski

„Við vorum að klára æfingu í morgun og því miður þurfti Ingvar markmaður að stíga út en að öðru leyti eru allir klárir,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, á blaðamannafundi í dag.

Ísland mætir Suður-Kóreu í vináttuleik í Tyrklandi á morgun og er ljóst að markvörðurinn Ingvar Jónsson verður ekki með. Þá er Stefán Teitur Þórðarson farinn heim vegna meiðsla og Brynjólfur Willumsson greindist með kórónuveiruna á dögunum.

Íslenska liðið mætti Úganda á þriðjudag en Arnar á von á öðruvísi leik á morgun. „Við eigum von á allt öðrum leik. Það vantar 4-5 sem eru oftast í byrjunarliðinu hjá þeim. Það vantar miðjuna þeirra og Son. Að öðru leyti er þetta sterkur hópur hjá þeim sem hefur spilað lengi saman. Þjálfarinn tók við fyrir 3-4 árum og þeir hafa breytt sínum leikstíl. Þeir eru ekki bara skyndisóknarlið lengur, heldur halda boltanum betur innan liðsins. Við eigum ekki von á því að stjórna leiknum á morgun eins og á móti Úganda og að því leyti verður þetta öðruvísi.

Ingvar Jónsson í landsleik árið 2017.
Ingvar Jónsson í landsleik árið 2017. AFP

Áherslurnar verða öðruvísi en á móti Úganda. Við viljum loka á þessi litlu mistök og í dag fórum við yfir varnarfærslur. Suður-Kórea spilar 4-3-3 sem er spegilmyndin á okkar kerfi. Það er gott að fá leik á móti mjög góðu liði og liði sem spilar hraðan fótbolta til að æfa þessa varnarfærslu,“ sagði Arnar.

Hann er ánægður með hvernig reynslumeiri leikmenn innan hópsins hafa miðlað áfram til yngri leikmanna sem eru að stíga sín fyrstu skref með A-landsliðinu. „Þrátt fyrir að Ingvar sé mjög svekktur með að hafa meiðst þá hefur hann verið frábær í kringum yngri markverðina. Þá hefur Damir verið mjög jákvæður og mikill leiðtogi. Ég er að kynnast þeim í fyrsta skipti og þeir hafa litið vel út,“ sagði Arnar Þór.

mbl.is