Nýliðarnir styrkja sig

James Dale er nýr liðsmaður Þróttar úr Vogum.
James Dale er nýr liðsmaður Þróttar úr Vogum. Ljósmynd/Þróttur Vogum

Karlalið Þróttar úr Vogum í knattspyrnu hefur krækt í enska miðjumanninn James Dale fyrir komandi átök í 1. deildinni í knattspyrnu, þar sem liðið er nýliði.

Dale kemur frá Víkingi úr Ólafsvík, sem féll úr 1. deildinni á síðasta tímabili. Þar lék hann undanfarin þrjú tímabil og var fyrirliði liðsins um skeið.

Dale kom fyrst til landsins um mitt sumar 2018 og lék þá með Njarðvík. Hann er margreyndur leikmaður sem á fjölda leikja að baki í skosku B-deildinni og C-deildinni. Sem unglingur var hann á mála hjá Reading og Bristol Rovers en lék síðan með skosku félögunum Forfar og Brechin frá 2013 til 2018.

Von er á Dale til landsins 1. mars næstkomandi. Þróttur sigraði 2. deildina á síðasta tímabili og leikur því í 1. deild á komandi tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert