Samdi við Danina til 2026

Atli Barkarson í leik með 21-árs landsliðinu í haust.
Atli Barkarson í leik með 21-árs landsliðinu í haust. mbl.is/Kristinn Magnússon

Danska knattspyrnufélagið SönderjyskE skýrði í dag frá því að gengið hefði verið frá kaupum á Atla Barkarsyni frá Íslands- og bikarmeisturum Víkings og samið við hann til hálfs fimmta árs. Hann er því samningsbundinn félaginu til ársins 2026.

Á dögunum var sagt frá því að Víkingar hefðu samþykkt tilboð danska félagsins í Atla sem var í stóru hlutverki hjá þeim sem vinstri bakvörður á síðasta tímabili og spilaði alla 27 leiki liðsins í deildinni og bikarnum.

Atli er tvítugur og lék fyrr í þessum mánuði tvo fyrstu A-landsleiki sína en hann á að baki 34 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Hann er uppalinn hjá Völsungi en fór ungur til Norwich City á Englandi og þaðan til Fredrikstad í Noregi en hefur undanfarin tvö tímabil leikið með Víkingum og spilaði alls 36 úrvalsdeildarleiki með þeim.

Þar með eru tveir Íslendingar í röðum SönderjyskE, sem er í ellefta og næstneðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar, en Kristófer Ingi Kristinsson kom til félagsins fyrir þetta tímabil. 

Áður hafa Sölvi Geir Ottesen, Ólafur Ingi Skúlason, Hallgrímur Jónasson, Eyjólfur Héðinsson, Baldur Sigurðsson, Eggert Gunnþór Jónsson og Ísak Óli Ólafsson allir leikið með SönderjyskE og markverðirnir Arnar Darri Pétursson og Frederik Schram hafa einnig verið í röðum félagsins.

Enda er vísað til þess á heimasíðu SönderjyskE og sagt að um árabil hafi verið sterkur þráður á milli SönderjyskE og íslenskrar knattspyrnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert