Sævar veltir fyrir sér framboði til formanns KSÍ

Sævar Pétursson
Sævar Pétursson mbl.is

Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA á Akureyri veltir fyrir sér að bjóða sig fram í kjöri formanns Knattspyrnusambands Íslands á ársþingi KSÍ í lok febrúar og staðfesti við mbl.is að hann myndi reyna að komast að niðurstöðu um helgina hvort af því verði.

„Þetta fór af stað á miðvikudaginn þegar fulltrúar frá tveimur félögum höfðu samband við mig og í kjölfarið ræddi ég við tvö félög til viðbótar til þess að reyna að finna hvort einhver grundvöllur væri fyrir þessu. Mér finnst spennandi að starfa í íþróttahreyfingunni, hef verið vakinn og sofinn innan hennar, og þegar stærsta starfið innan hennar kemur til umræðu þá skoðar maður það," sagði Sævar við mbl.is í dag.

Hann kvaðst ætla að reyna að nýta helgina til að fara yfir málið og komast að niðurstöðu. „Þetta er að sjálfsögðu staða sem fjölskyldan þarf að fara vel yfir. Við búum á Akureyri og hér er gott að vera en það er klárt að starf formanns KSÍ fer fram í Laugardalnum," sagði Sævar Pétursson.

Vanda Sigurgeirsdóttir var kjörin formaður á aukaþingi KSÍ í byrjun október, eftir að Guðni Bergsson hætti í lok ágúst. Hún er enn sem komið ein í framboði til formannsembættisins.

Sævar er 47 ára gamall og hefur verið framkvæmdastjóri KA undanfarin tíu ár. Hann lék á sínum tíma með Breiðabliki, Fram og Val í efstu deild en einnig með Haukum, KS á Siglufirði, Tindastóli á Sauðárkróki og Einherja á Vopnafirði.

mbl.is