Nild eltir Björn og Sif á Selfoss

Miranda Nild.
Miranda Nild.

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við tælensku landsliðskonuna Miranda Nild. Hún er 25 ára sóknarmaður sem var síðast á mála hjá Kristianstad í Svíþjóð.

Nild lék með Kristianstad sem lánsmaður frá bandaríska úrvalsdeildarliðinu OL Reign en hún hóf atvinnumannaferilinn með FC Gintra í Litháen árið 2019.

Björn Sigurbjörnsson nýráðinn þjálfari Selfyssinga var aðstoðarþjálfari hjá Kristianstad og ætti því að þekkja Nild vel. Sif Atladóttir er einnig komin til Selfoss frá Kristianstad. 

Miranda Nild er fædd í Bandaríkjunum en faðir hennar er frá Tælandi og var hún fyrst valin í tælenska landsliðið árið 2017. Hún hefur leikið 20 A-landsleiki fyrir Tæland og skorað í þeim 15 mörk.

„Miranda er mjög alhliða sóknarmaður sem spilaði síðasta tímabil hjá mér í Kristianstad. Ég veit að hverju ég geng með því að fá hana hingað. Hún er mjög skemmtileg týpa, bæði á vellinum og fyrir utan hann. Hún er með góða tækni, róleg á boltanum og með gott skot í báðum fótum. Ég er alveg viss um að hún á eftir að koma að einhverjum mörkum og gefa okkur aukna breidd og aukin gæði í sóknarleik okkar,“ segir Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert