Blikar sáu tvö rauð en unnu samt

Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks skoraði í kvöld.
Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks skoraði í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Breiðablik vann 3:1 sigur á ÍA á Kópavogsvelli í riðli 2 í A-deild Lengjubikarsins í knattspyrnu í kvöld.

Kristinn Steindórsson kom Breiðabliki yfir á fimmtu mínútu leiksins en Guðmundur Tyrfingsson jafnaði á 17. mínútu. Elfar Freyr Helgason fékk svo að líta beint rautt spjald á 32. mínútu.

Varamaðurinn Benedikt V. Warén kom Breiðabliki aftur yfir á 85. mínútu en fékk svo að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt fimm mínútum síðar. Það kom þó ekki að sök en fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson gulltryggði sigur Breiðabliks með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Þetta var fyrsti leikur Breiðabliks í riðlinum en liðið er í þriðja sæti með þrjú stig. Skagamenn eru á toppnum með sex stig eftir þrjá leiki.

mbl.is