Grænn þjóðarleikvangur í Kópavogi?

Stade de Luxembourg er nýr þjóðarleikvangur Lúxemborgar sem rúmar tæplega …
Stade de Luxembourg er nýr þjóðarleikvangur Lúxemborgar sem rúmar tæplega 10 þúsund áhorfendur. Verkefnishópur um þjóðarleikvang í Kópavogi hefur m.a. horft til hans sem fyrirmyndar. Myndin er tekin á meðan hann var enn í byggingu.

„Tíminn er dýrmætur og miðað við hvernig staðan er í dag hjá ríkinu og Reykjavíkurborg varðandi byggingu nýs þjóðarleikvangs teljum við að tími sé kominn til að reyna að leysa það mál á annan hátt.

Við sjáum fyrir okkur að það væri hægt að reisa þjóðarleikvang í Kópavogi á næstu fimm árum og fjármagna hann á annan hátt en rætt hefur verið um til þessa,“ segir Gunnar Gylfason, fyrrverandi starfsmaður KSÍ til 20 ára og núverandi vettvangsstjóri hjá UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu, í Meistara- og Evrópudeildunum.

Gunnar Gylfason er vettvangsstjóri hjá UEFA og starfaði fyrir KSÍ …
Gunnar Gylfason er vettvangsstjóri hjá UEFA og starfaði fyrir KSÍ í 20 ár. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Gunnar fer fyrir verkefnishópi sem settur hefur verið á laggirnar til þess að þróa hugmyndir um að reisa nýjan þjóðarleikvang fyrir knattspyrnu á félagssvæði Breiðabliks í Kópavogi, og fjármagna hann með svokallaðri grænni innviðafjárfestingu þar sem fasteignafélag kæmi að fjármögnun og rekstri, með aðkomu lífeyrissjóða. Völlurinn á að vera „umhverfisvænasti þjóðarleikvangur veraldar“ eins og Gunnar orðaði það við Morgunblaðið þar sem sjálfbærni og endurnýting eru í forgrunni.

Lausn fyrir aðrar íþróttir?

„Það sjá allir þá kyrrstöðu sem er í gangi í þessum málum sem eru orðin að störukeppni milli ríkis og borgar. Flækjustigið er að það þarf ekki bara að byggja fótboltavöll.

Það þarf líka að byggja þjóðarleikvang fyrir handbolta og körfubolta, sem kostar sitt, og þjóðarleikvang fyrir frjálsíþróttir, sem kostar sitt. Þessi mál eru öll í einum hnút. Hingað til hefur verið talað um að það séu bara tveir aðilar sem geti fjármagnað dæmið, ríkið og Reykjavíkurborg.

Það er hins vegar ekkert lögmál að landsleikir fari fram í höfuðborgum og það væri gott fyrir alla aðila ef fótboltaleikvangi væri kippt út fyrir sviga og hann fjármagnaður á annan hátt á öðrum stað. Þá yrði auðveldara fyrir borgina að koma að mannvirkjum fyrir aðrar íþróttir og ríki og borg gætu þá kannski komist að samkomulagi um þær framkvæmdir.

Þessi nálgun sýnir að það eru aðrir möguleikar fyrir hendi, t.d. með þessari grænu hugsun þar sem sjálfbærni væri í fyrirrúmi í hönnun vallarins. Lífeyrissjóðirnir sitja á fullt af peningum sem þeir þurfa að ávaxta. Þá bráðvantar góðar fjárfestingarleiðir. Fyrir þá er kjörið að koma að langtíma grænni innviðafjárfestingu á hagstæðum vöxtum, sem þá væri hægt að nota í að fjármagna svona verkefni.

Fjárfestingafélag sem tæki þetta verkefni að sér tæki lán hjá lífeyrissjóðnum til 25-40 ára. Við höfum viðrað þessar hugmyndir við reynda aðila í þessum geira og þeir eru spenntir fyrir því að taka þátt í verkefninu. Við þekkjum til þannig rekstrarfyrirkomulags, eins og t.d. hjá Egilshöllinni,“ sagði Gunnar þegar Morgunblaðið ræddi við hann um stöðu mála.

Ítarlegt viðtal við Gunnar um mögulegan þjóðarleikvang í Kópavogsdal er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert