Hanskarnir á hilluna hjá Hannesi

Hannes Þór Halldórsson hefur lagt hanskana á hilluna.
Hannes Þór Halldórsson hefur lagt hanskana á hilluna. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Hannes Þór Halldórsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Íslands í fótbolta, hefur lagt hanskana á hilluna. Hannes, sem er 37 ára, staðfesti tíðindin á Twitter í dag.

Hannes lék 77 landsleiki á árunum 2011 til 2021 og stóð á milli stanganna í öllum leikjum Íslands á lokamóti EM í Frakklandi 2016 og HM í Rússlandi 2018. Hann lék með Val þrjú síðustu tímabil ferilsins.

Markvörðurinn lék einnig með Leikni úr Reykjavík, Aftureldingu, Stjörnunni, Fram og KR hér á landi. Þá lék hann með norsku liðunum Brann, Sandnes Ulf og Bodø/Glimt, Randers í Danmörku, NEC í Hollandi og Qarabag í Aserbaídsjan.

Hannes lék 205 leiki í efstu deild hér á landi, 18 í 1. deild og 21 í 2. deild. Hann varð Íslandsmeistari með Val árið 2020 og með KR árin 2011 og 2013.

Er hann leikjahæsti markvörður íslenska landsliðsins frá upphafi. Fyrsti landsleikurinn kom gegn Kýpur í 1:0-sigri í september árið 2011 þegar hann var 27 ára. Síðasti landsleikurinn kom gegn Þýskalandi á Laugardalsvelli á síðasta ári en þá mátti Ísland þola 0:4-tap. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert