Ekkert auðvelt að komast í þetta lið

Ísak Snær Þorvaldsson var ánægður þegar hann kom af velli …
Ísak Snær Þorvaldsson var ánægður þegar hann kom af velli skömmu fyrir leikslok í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Ég er mjög ánægður með að hafa fengið traustið frá Óskari Hrafni," sagði Ísak Snær Þorvaldsson við mbl.is eftir að hafa skorað tvö marka Breiðabliks í 3:0 sigri á FH í Bestu deildinni í fótbolta á Kópavogsvellinum í kvöld.

Ísak skoraði fyrsta og þriðja markið og átti stóran þátt í marki númer tvö. Hann hefur nú skorað fjögur mörk í fyrstu þremur umferðunum, öll á Kópavogsvelli.

„Þetta er bara geggjað, að byrja svona. Það er ekki bara ég, það er liðið í heild sem vinnur þetta saman," sagði Ísak hógvær við mbl.is.

Hann hefur áður aðallega leikið sem miðjumaður, síðast með Skagamönnum, en hefur verið í framlínu Blikanna í fyrstu þremur leikjunum, með góðum árangri.

„Já, ég hef oftast spilað inni á miðjunni en ég var líka mikið frammi og úti á kanti þegar ég var í Norwich þannig að ég þekki þessar stöður. Það er skemmtilegt að spila svona framarlega og svo eru mörkin góður bónus. En það eru samt stigin sem eru mikilvægust," sagði Ísak.

Aðspurður sagði Ísak að það hefði ekki verið einfalt að vinna sér sæti í byrjunarliði Breiðabliks í vetur.

„Það var mjög erfitt til að byrja með og það er ekkert auðvelt að komast inn í þetta lið. En ég er mjög ánægður með að hafa fengið traustið frá Óskari Hrafni og ég gef honum til baka með því að skora mörk og hjálpa liðinu að vinna leikina. Við spilum mjög vel saman, erum yfirvegaðir þegar við þurfum og höldum boltanum en sækjum þegar færi gefast. Svo snýst þetta allt um að vinna hver fyrir annan, þá erum við sáttir með hlutina," sagði Ísak Snær Þorvaldsson, markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar það sem af er tímabilinu.

mbl.is