Fyrstu stig ÍBV og Leiknis í sumar

Andri Rúnar Bjarnason fagnar marki sínu í dag.
Andri Rúnar Bjarnason fagnar marki sínu í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar Guðmundsson

ÍBV tók á móti Leiknismönnum í Bestu deild karla á Hásteinsvelli í dag. Liðin neyddust til að deila stigunum. Staðan í leikslok var 1:1.

Fyrir leikinn voru bæði lið með 0 stig. ÍBV hafði tapað sannfærandi fyrir KA á heimavelli í síðustu umferð á meðan Leiknismenn töpuðu fyrir Stjörnunni. Þau voru því einstaklega dýrmæt stigin sem voru í boði í Vestmannaeyjum í dag.

Liðin fóru rólega í sakirnar en þegar leið á leikinn tóku Eyjamenn yfirhöndina, héldu boltanum vel og freistuðu þess að skapa sér marktækifæri. Leiknismenn lágu hinsvegar djúpt og var ljóst að upplegg þeirra var að vinna boltann og sækja hratt.

Fyrsta almennilega færið leit dagsins ljós þegar rétt tæplega 9 mínútur voru liðnar af leiknum. Guðjón Ernir, hægri bakvörður Eyjamanna, komst þá inn í teig Leiknismanna og átti skot sem hæfði stöngina. Leiknismenn sluppu því með skrekkinn í það skiptið.

Ekki löngu síðar fékk Andri Rúnar, framherji ÍBV, boltann inni í teig Leiknis og kláraði fantavel í hægra hornið. Línuvörðurinn var hinsvegar fljótur að lyfta flagginu og Andri Rúnar dæmdur rangstæður.

Það var svo á 26. mínútu er Eyjamenn brutu ísinn. Það hafði verið hálfgert klafs í teig Leiknismanna eftir sókn ÍBV. Boltinn endaði hinsvegar fyrir utan teig þar sem Guðjón Pétur, miðjumaður ÍBV, lagði boltann snyrtilega á Andra Rúnar sem kláraði færið auðveldlega. Sanngjarnt 1:0 fyrir heimamönnum.

Það var þó ekki nema tæplega þrem mínútum síðar er Leiknismenn smíðuðu góða sókn sem endaði í netinu. Einbeiting heimamanna hafði greinilega orðið eftir í markinu þeirra því varnarleikurinn var ekki sérstakur í þetta skiptið. Gestirnir áttu þá ágætis sóknartilburði og endaði boltinn hjá Arnóri Inga, hægri bakverði Leiknismanna, sem lét skotið ríða af. Boltinn var líklega á leiðinni framhjá en átti viðkomu hjá Eiði Aroni, miðverði ÍBV, sem gat lítið gert við því. Af honum fór boltinn í markið án þess að Halldór Páll kæmi vörnum við. 1:1 og Leiknismenn búnir að svara góðri byrjun Eyjamanna.

Leikurinn var frekar tíðindalítill það sem eftir lifði. Eyjamenn voru þó heilt yfir betri á flestum sviðum og áttu vissulega tækifæri til að hirða öll stigin. Ekki nægilega góð færanýting og frábær frammistaða hjá Viktori Frey, markverði Leiknis, sáu til þess að Leiknismenn gátu farið sáttir heim með unnið stig. 1:1 enduðu leikar og bæði lið með eitt stig eftir þrjár umferðir í Bestu deild karla sumarið 2022.

ÍBV 1:1 Leiknir R. opna loka
90. mín. Felix Örn Friðriksson (ÍBV) á skot sem er varið Felix fær boltann í kanalinum og leitar inn í teiginn í skotinn. En Viktor Freyr stendur sig sem fyrr. Báðir búnir að vera flottir í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert