Cecilía með langan samning við Bayern München

Cecilía Rán Rúnarsdóttir í leik með Fylki 2020.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir í leik með Fylki 2020. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Þýska knattspyrnustórveldið Bayern München hefur gengið frá fjögurra ára samningi við landsliðsmarkvörðinn unga Cecilíu Rán Rúnarsdóttur sem hefur verið í láni hjá félaginu frá Everton á Englandi frá áramótum.

Ekki hefur verið tilkynnt opinberlega um samninginn en samkvæmt öruggum heimildum mbl.is er hann frágenginn, búið að skrifa undir til ársins 2026, og aðeins beðið eftir því að Cecilía verði formlega laus allra mála frá Everton.

Cecilía er 18 ára gömul en hún lék í marki meistaraflokks Aftureldingar frá fjórtán ára aldri og varði síðan mark Fylkis í úrvalsdeildinni árin 2019 og 2020.

Hún var í röðum Örebro í Svíþjóð tímabilið 2021 og lék þar sjö leiki í sænsku úrvalsdeildinni en gat síðan ekki komið til liðs við Everton um síðustu áramót eins og til stóð þar sem atvinnuleyfi fékkst ekki á Bretlandseyjum.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir kom til liðs við Bayern í janúar.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir kom til liðs við Bayern í janúar. Ljósmynd/Bayern

Everton lánaði þá Cecilíu til Þýskalandsmeistara Bayern. Þar hefur hún verið í hlutverki varamarkvarðar og spilað einn leik í Bundesligunni og einn leik með varaliði félagsins í B-deildinni. Hún varð fyrir því óláni að handarbrotna í apríl og leikur ekki meira á þessu tímabili en unnið er hörðum höndum að því hjá Bayern að hún verði leikfær með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu á Englandi í sumar.

Cecilía á að baki 24 leiki með yngri landsliðum Íslands og hún kom inn í A-landsliðið í mars 2020 og lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Norður-Írlandi. Hún hefur nú leikið átta landsleiki, tvo þeirra í undankeppni HM, síðast gegn Hvíta-Rússlandi 7. apríl, og tvo leiki af þremur á She Believes-mótinu í Bandaríkjunum í febrúar þar sem hún varði mark Íslands gegn heimsmeistaraliði Bandaríkjanna.

Hjá Bayern leikur Cecilía með tveimur samherjum sínum úr íslenska landsliðinu, Glódísi Perlu Viggósdóttur og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur. Bayern er í öðru sæti þýsku 1. deildarinnar þegar liðið á tvo leiki eftir, einu stigi á eftir Wolfsburg, sem á hinsvegar leik til góða og allt bendir til þess að Bayern þurfi að sætta sig við silfurverðlaunin í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert