Lék gegn Arsenal í vetur og spilar með Vestra í sumar

Vestri hefur bætt við sig enskum leikmanni.
Vestri hefur bætt við sig enskum leikmanni. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Toby King, tvítugur enskur knattspyrnumaður, hefur samið við Vestra frá Ísafirði um að leika með liðinu í 1. deild karla á komandi keppnistímabili en hann kemur frá enska B-deildarfélaginu West Bromwich Albion.

King er miðjumaður og á að baki einn aðalliðsleik með WBA en hann lék með liðinu gegn Arsenal í deildabikarnum í vetur, spilaði síðustu tuttugu mínúturnar í leik sem Arsenal vann 6:0 og Pierre-Emerick Aubamayang, sem nú leikur með Barcelona, skoraði þrennu.

King lék annars með U23 ára liði WBA og var einnig í láni hjá utandeildalðinu Billericay Town í nokkrar vikur.

Þá er Christian Jimenez, 25 ára spænskur bakvörður, kominn til Vestra og lék æfingaleik með liðinu í síðustu viku.

mbl.is