Átti bara eftir að ýta boltanum yfir línuna

Ágúst Þór Gylfason þjálfari Stjörnunnar.
Ágúst Þór Gylfason þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Haukur Gunnarsson

„Við vorum frekar daprir í fyrri hálfleiks eins og við hefðum ekki mætt til leiks svo að Framarar bara gengu á lagið, voru góðir með boltann og skoruðu verðskuldað mark til að komast í eitt-núll,“  sagði   Ágúst Þór Gylfason þjálfari Stjörnunnar  eftir 1:1 jafntefli gegn Fram þegar liðin mættust í Garðabænum í dag er leikið var í efstu deild karla í fótbolta, Bestu deildinni.

Þjálfarinn sagði sína menn síðan hafa tekið við sér.  „Það var því basl í fyrri hálfleik en í þeim seinni fannst mér við koma sterkir inn og fórum strax frá fyrstu mínútu að stýra leiknum, fengum færi og skoruðum úr einu.  Hefðum getað skorað fleiri en síðustu fimm mínúturnar í lokin var sótt fram og til baka svo að úrslitin hefðu getað verið á hvorn veginn sem er.“

Ágúst sagði markaleikinn við Víkinga ekki hafa setið í mönnum.  „Það er einhver deyfð en hefur ekkert með undirbúning að gera, menn eru alveg með góða orku.  Við áttum flottan síðasta leik þar sem skorum fimm mörk og  fáum á okkur fjögur.  Ég get samt ekki sagt að sá leikur hafi setið í okkur við sýndum karakter í seinni hálfleik og náðum að kvitta fyrir þann fyrri.  Hefðum jafnvel átt að skora í lokin þegar Emil fær boltann nánast á línu og átti bara eftir að ýta honum yfir línuna, það var svekkjandi að sjá ekki boltann inni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert