Er í hálfgerðu áfalli yfir færunum

Hlynur Atli Magnússon fyrirliði Fram.
Hlynur Atli Magnússon fyrirliði Fram. mbl.is/Þórir Tryggvason

„Ég get ekki sagt að ég sé sáttur, er í hálfgerðu áfalli og skil ekki hvernig við náum að klúðra færum, sérstaklega þessu í lokin,“ Hlynur Atli Magnússon fyrirliði Fram eftir 1:1 jafntefli gegn Stjörnunni þegar liðin mættust í Garðbænum í efstu deild karla í fótbolta, Bestu deildinni, í dag. 

„Mér finnst við hafa verið með yfirhöndina lungan í fyrri hálfleik en færðum okkur aðeins til  baka þegar við skorum markið okkar.  Í seinni hálfleik erum við svolítið ryðgaðir til að byrja með en náum svo að koma okkur smám saman inn í leikinn.  Við áttum samt meira í fyrri hálfleiknum.“

Fram komst upp úr fallsæti eftir úrslit dagsins en þarf enn að bíða eftir sínum fyrsta sigri í deildinni eftir stór töp í fyrstu leikjunum en jafntefli í tveimur síðustu.  „Við erum orðnir mjög hungraðir í fyrsta sigurinn.  Mér finnst spilamennskan hjá okkur alltaf á uppleið og við spiluðum mjög vel í dag þegar við unnum fyrir hvorn annan.  Þetta fer að detta hjá okkur og við erum þolinmóðir þó maður hefði alltaf viljað þrjú stig í dag,“ bætti fyrirliðinn við.

Vorum á hælunum og áttum að gera betur

Einar Karl Ingvarsson miðjumaður Garðbæinga stóð í ströngu. „Mér fannst þetta svo sem ágætur leikur en fyrri hálfleikurinn okkar var ekki góður, vorum á hælunum og hefðum átt að gera betur.   Við áttum að byrja leikinn betur en byrjum seinni hálfleikinn mjög vel, hefðum átt að nýta færin betur til að komast strax inní leikinn en Fram er með sterkt lið, við hefðum samt viljað þrjú stig í dag,“ sagði Einar Karl Ingvarsson eftir leikinn

Stjarnan vann Víkinga í síðast leik þar sem skoruð voru 9 mörk en Einar Karl sagði það ekki skipta máli í dag.  „Við komum okkur strax niður á jörðina og fórum að hugsa um leikinn í dag.  Vorum ekkert sérstaklega að spá í Víkingsleikinn, þurftum bara að núll-stilla okkur auk þess að þetta er öðruvísi lið en við hefðum þurft að mæta aðeins betur í dag til leiks.“

mbl.is