Hefðum getað stolið þessu

Arnar Grétarsson, þjálfari KA, var ánægður með sína menn í …
Arnar Grétarsson, þjálfari KA, var ánægður með sína menn í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Við erum með fínan mannskap, og getum verið ansi skipulagðir og það var mikil vinnusemi í liðinu. Þá erum við alltaf hættulegir fram á við, því við erum með fljóta menn fram á við,“ segir Arnar Grétarsson, þjálfari KA-manna, en lið hans gerði markalaust jafntefli við KR-inga í Vesturbænum fyrr í dag í 4. umferð Bestu deildar karla.

„Ég fann í fyrri hálfleik að KR var aðeins með yfirhöndina að halda boltanum, en þeir sköpuðu sér varla færi í leiknum. Ég hefði viljað sjá okkur aðeins rólegri á boltanum og duglegri að hlaupa aftur fyrir þá meðan við vorum ellefu á móti ellefu, en svo gjörbreytist leikurinn þegar við verðum manni færri. Þá þarftu að fara neðar og verjast og reyna að ná skyndisóknum. Mér fannst við gera það vel og við hefðum getað stolið þessu í restina,“ segir Arnar, sem var ánægður með sitt lið í dag, þrátt fyrir að þeir hafi þurft að spila í um 54 mínútur manni færri. 

Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA-manna, var ekki með í dag, en hann þurfti að fara út af meiddur á móti Keflavík í síðasta leik. Arnar segir að líklega sé of snemmt fyrir Ásgeir að spila næsta leik KA-manna, sem verður á miðvikudaginn eftir helgi, en að hann ætti að ná næsta leik þar á eftir. 

Þá var Hallgrímur Mar Steingrímsson á bekknum í upphafi leiks, þar sem hann er að stíga upp úr meiðslum, en hann var drjúgur fyrir KA-menn eftir að hann kom inn á. Arnar segir Hallgrím vera að bæta sig með hverjum leiknum sem hann nær að spila og sömu sögu megi segja um Sebastian Brebels og Dusan Brkovic, sem kom inn á eftir rauða spjaldið og átti mjög góðan leik.

„Þannig að það er mjög jákvætt, að koma hingað í Vesturbæinn og sækja stig. Ég held það hafi verið alveg sanngjarnt, auðvitað vill maður alltaf meira, en ég er viss um að KR-ingarnir hafi viljað það líka, þannig að við erum bara báðir þar,“ segir Arnar. 

Segir Kjartan hafa stigið á sig

Arnar segir að hann hafi ekki séð atvikið sem leiddi til þess að Oleksii Bykov var rekinn af velli, en að Bykov hefði sagt við sig að Kjartan Henry Finnbogason hafi stigið á sig. „Dómarinn tók þessa ákvörðun og það er ekkert við því að segja, en þetta er blóðugt, því við missum mann af velli og hann fer í bann, og svo missti gamli maðurinn sig aðeins,“ segir Arnar kíminn, en hann sjálfur fékk reisupassann snemma í seinni hálfleik.

Hann viðurkennir að hafa látið orð falla sem betur hefðu verið látin ósögð. „Mér fannst á tímabili sem ansi margar ákvarðanir væru að hallast að þeim, en auðvitað á maður aldrei að segja neitt,“ segir Arnar. 

En hvað sagði Arnar við dómarann? „Ég lét það falla að það vantaði bara hvítu rendurnar á treyjuna, sem maður má náttúrulega ekki segja. Ég skil það vel og ég bað dómarann afsökunar eftir leik,“ segir Arnar að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert