Menn verða að aðlagast efstu deildinni

Jón Þórir Sveinsson þjálfari Fram.
Jón Þórir Sveinsson þjálfari Fram. mbl.is/Kristinn Steinn Traustason

„Ég er nokkuð sáttur við frammistöðuna heilt yfir, menn hlupu og börðust en það er það sem maður vill og grunnurinn að því að geta spilað fótbolta,“  sagði Jón Þórir Sveinsson þjálfari Fram eftir 1:1 jafntefli gegn Stjörnunni þegar liðið mættust í Garðabænum í dag þar sem leikið var í efstu deild karla í fótbolta, Bestu deildinni.

„Mér fannst við mjög góðir í fyrri hálfleik en svo var meiri barátta í þeim seinni og það gekk verr að halda boltanum en heilt yfir er ég mjög sáttur.  Mér finnst stígandi í þessu hjá okkur.  Gerðum eitt-eitt jafntefli í síðasta leik eftir að hafa fengið svolítið mikið af mörkum á okkur í fyrstu tveimur leikjunum en þó þeir leikir hafi ekki verið alslæmir þá er stígandi.  Við fengum menn inn seint og þeir eru jafnvel að smyrjast inn í liðið en svo er talsverður munur að spila í þessari deild, það er minni tími með boltann og hraðari fótbolti sem menn verða að aðlagast.  Við erum með marga leikmenn sem hafa ekki spilað á því stigi en eru að höndla það fínt svo þetta var flott í dag,“  bætti þjálfarinn við.

mbl.is