Þúsundasti leikur Skagamanna í dag

ÍA og Breiðablik mætast á Akranesi klukkan 14 í dag …
ÍA og Breiðablik mætast á Akranesi klukkan 14 í dag og það er sögulegur leikur fyrir Skagamenn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skagamenn ná þeim stóra áfanga í dag þegar þeir taka á móti Breiðabliki í fjórðu umferð Bestu deildar karla í fótbolta klukkan 14.00 að spila sinn þúsundasta leik í efstu deild karla.

ÍA lék fyrst á Íslandsmótinu árið 1946 og þetta er því 77. mótið sem félagið tekur þátt í en þar af hefur það verið í 70 ár í efstu deild. Á þeim tíma hefur ÍA átján sinnum orðið Íslandsmeistari og níu sinnum bikarmeistari.

Í 999 leikjum til þessa hafa Skagamenn sigrað í 470 skipti, gert 208 jafntefli og tapað 321 leik. Markatala þeirra er 1.804 mörk gegn 1.380.

Aðeins þrjú önnur félög hafa áður náð þúsund leikjum á Íslandsmótinu/efstu deild í sögu þess frá árinu 1912. Það eru KR með 1.214 leiki, Valur með 1.175 leiki og Fram með 1.020 leiki, en þau hófu öll keppni um eða yfir 30 árum fyrr en Skagamenn.

Leikur ÍA og Breiðabliks hefst klukkan 14 og er sá fyrsti af fjórum leikjum í deildinni sem fram fara í dag.

Keflavík og ÍBV mætast í Keflavík klukkan 16.00.

KR og KA mætast á Meistaravöllum klukkan 16.15.

Stjarnan og Fram mætast í Garðabæ klukkan 16.15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert