Ætluðum að kaffæra þá

Júlíus Magnússon, lengst til hægri, fagnar Íslandsbikarnum með félögum sínum.
Júlíus Magnússon, lengst til hægri, fagnar Íslandsbikarnum með félögum sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við ætluðum að halda Leiknismönnum aftarlega, halda boltanum á vallarhelmingi þeirra  og reyna kaffæra þá, sem gekk vel og við fengum færin en því miður bara eitt stig,“  sagði Júlíus Magnússon fyrirliði Víkinga eftir markalaust jafntefli gegn Leikni í Breiðholtinu í kvöld þegar leikið var í efstu deild karla í fótbolta, Bestu deildinni.

Íslands- og bikarmeistarar er um miðjan deild eftir 5 leiki en fyrirliðinn er klár á sínu.  „Ég held að það sé skiljanlegt að það séu gerðar kröfur til  okkur, við erum Íslands- og bikarmeistarar og gerum sjálfir kröfu til okkar, að fá þrjú stig í hverjum leik.  Auðvitað er fylgst vel með okkur og allir vilja vinna okkur en það eru forréttindi og við verðum bara að taka því og taka okkur á. 

Mér finnst við vera með betra fótboltalið en í fyrra.  Auðvitað missum við ákveðna karaktera en þá verða aðrir að stíga fram til að vera leiðtogar.  Við erum auðvitað með markmið en það er erfitt og við verðum að einbeita okkur að hverjum leik því við erum að spila í deildinni og svo í Evrópu þar sem þarf aðra hugsun inn í leikinn svo við verðum bara að taka einn leik fyrir í einu.   Álagið er mikið en það er bara gott, því meira því betra.  Eftir svona leik eins og í kvöld, þar sem þér finnst þú eiga meira skilið en eitt stig þá er gott að það sé annar leikur innan við viku,  sagði fyrirliðinn.

Ætluðum að gera þá ráðvillta

Brynjar Hlöðversson átti frábæran leik í vörn Leiknis í kvöld. „Mér fannst þetta alvöru leikur, ekki mikið um færi en skemmtilega að spila eftir sem áður.  Við ætluðum að pressa á Víkinga á réttu augnabliki, neyða þá til að sparka langt fram en loka svo öðru megin og gera ráðvillta.  Mér fannst okkur takast það, Víkingar fundu ekki mörg ráð gegn okkur  en það er ekkert sjálfgefið að spila einhvern samba fótbolta svona snemma sumars þegar grasið er ekki alveg orðið fullkomið,“  sagði Brynjar.

Leiknismenn náðu með þessu eina stigi að komast upp í 10. sætið og Brynjar er bjartsýnn á framhaldið. „Við erum samt alveg tilbúnir fyrir mótið, vorum það alveg frá byrjun en höfum samt gert þetta okkur erfitt fyrir.  Höfum verið að bíða eftir að fá þennan Leiknisanda með samheldnina en maður fann sérstaklega   að  hann kom hér í dag þegar menn unnu saman svo það er jákvætt fyrir framhaldið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert