Markalaus barningur í Breiðholtinu

Birgir Baldvinsson úr Leikni með boltann í kvöld. Erlingur Agnarsson …
Birgir Baldvinsson úr Leikni með boltann í kvöld. Erlingur Agnarsson eltir hann. mbl.is/Óttar Geirsson

Enn bíða Leiknismenn eftir að skora fyrsta mark sitt á heimavelli í Bestu deild karla í fótbolta þegar þeir gerðu markalaust jafntefli við Víkinga í Breiðholtinu í kvöld í leik sem mun ekki sitja lengi í minninu, reyndar áttu nokkrir leikmenn góða spretti. 

Engu að síður dugar stigið Leikni til að taka 10. sætið af Fram en Víkingar eru eftir sem áður í fimmta sætinu.

Breiðhyltingar byrjuðu með látum og komust í nokkur færi þó hættan hefði aldrei verið sérstaklega mikil. Gestirnir sátu það af sér, fóru síðan að sækja og náðu góðum þunga í sóknir sínar en tókst samt ekki að komast síðasta spölinn því Leiknismenn þéttu ráðir sínar á vítateigslínunni.

Engu að síður þyngdust sóknir Víkinga áfram, Oliver Ekroth skallaði vel að marki á 27. mínútu, Kristall Máni Ingason skaut framhjá af stuttu færi og á 31. mínútu átti Viktor Örlygur Andrason þrumuskot af 25 metra væri – frábært skot en jafnvel varið í horn af Viktori Frey Sigurðssyni í marki Leiknis.   Birnir Snær Ingason átti síðan tvö ágæt skot en markið lét bíða eftir sér.   Síðustu mínútur fyrri hálfleiks tóku Leiknismenn síðan viðbragð og sóttu af krafti en Víkingar voru viðbúnir því.

Síðari hálfleikur hófst svipað og sá fyrri, Víkingar sóttu meira en Leiknismenn áttu góða spretti.  Kristall Máni fékk á 53. mínútu frábært færi til að koma Víkingum yfir, fékk þá sendingu þvert yfir frá Birni Snæ og rakti boltann inní teig, ætlaði síðan að skjóta undir markmann Leiknis en sá var viðbúinn og varði vel. 

Eftir það varð leikurinn í jafnvægi, bæði lið reyndu að sækja en það var lítið bit í sóknum liðanna.  Undir lokin voru menn þreyttir og önugir.    Á lokamínútunni kom svo síðasta færið þegar Kristall Máni náði ekki að skalla fyrirgjöf og boltinn rétt framhjá af stuttu færi.

Leiknismenn fara til Keflavíkur í næsta leik en Víkingar fá Fram í heimsókn.

Leiknir R. 0:0 Víkingur R. opna loka
90. mín. Kristall Máni Ingason (Víkingur R.) á skalla sem fer framhjá Stakk sér fram en náði ekki að hitta rammann af stuttu færi.
mbl.is