Stíflan þarf að bresta

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis.
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis. mbl.is/Haukur Gunnarsson

„Við ætluðum að vera mjög þéttir, mjög skipulagðir og refsa með snöggum sóknum,“ sagði  Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Leiknis eftir markalaust jafntefli við Víkinga í Breiðholtinu í kvöld þegar leikið var í efstu deild karla í fótbolta, Bestu deildinni.

„Mér fannst skipulagið með vörnina ganga fullkomlega upp og Víkingur fékk ekki mörg færi.  Strákarnir mínir fá því risa hrós fyrir að standa varnarleikinn eins og þeir gerðu.  Við höfum beðið fyrstu umferðirnar eftir að sjá Leiknishjartað skína, eins og maður sá svo mikið í fyrra en nú kom það og þá er ég bjartsýnn á framhaldið.   Mér fannst við að mörgu leiti ná okkar leik gegn KA um daginn og þá fengum við fleiri marktækifæri en í dag fannst mér kveikt á öllum leikmönnum, eitthvað sem ég saknaði í fyrstu þremur leikjunum þar sem er samheldni og trú á verkefninu en það kom í dag.“

Leiknismenn hafa sjálfir ekki skorað mark í sumar svo segja má að þeirra markhæsti maður spili með ÍBV.   „Ég held að við höfum skorað mest allra lið á undirbúningstímabilinu en nú er einhver stífla sem þarf að bresta og þá erum við brattir,“  sagði þjálfarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert