Stundum betra að vera veiðimaðurinn en bráðin

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga.
Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við áttum alveg von á að þeir myndu spila svona, bakka aftur og skjótast svo fram því það gera flest lið á móti okkur en aðstæðurnar voru hinsvegar hrikalegar erfiðir en við reyndum, fengum fínustu færi en boltinn vildi ekki inn,“ sagði  Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga eftir 0:0 jafntefli gegn Leikni þegar liðin mættust í Breiðholtinu í kvöld er leikið var í efstu deild karla í knattspyrnu, Bestu deildinni.

„Ég er því ánægður með frammistöðuna hjá mínum mönnum, fólk verður að gera sér grein fyrir hvað er erfitt að spila fótbolta við svona aðstæður.  Veit að margir dásama grasvöllinn okkar Víkinga en margir af þessum völlum er bara tún, sem bitnar mikið á gæðum knattspyrnunnar en bæði lið í kvöld reyndu sannarlega.“

Íslands- og bikarmeistarar Víkings  hafa nú unnið tvo leiki, tapað tveimur og í kvöld kom fyrsta jafnteflið en þjálfarinn er brattur í bland við skynsemi.  „Við erum ekki komnir með eins mörg stig og við vildum en spilamennskan hjá okkur inn á milli hefur verið mjög fín.  Þetta er bara svo fljótt að fara, menn sem hafa spilað vel fyrir okkur hafa ekki átt sinn besta dag inn á milli en þegar maður spáir í það þá er það ekki svo óeðlilegt því varnarlína okkur hefur breyst mikið og það komu smá hnökrar til að byrja með.  Þetta mót er mjög langt mót.  Nú er augnablikið, þetta sem er svo skemmtilegt í fótboltanum,  hjá öðrum liðum og þá þarf bara að halda sig inni og ekki missa liðin alltof langt í burtu.  Stundum er líka betra að vera veiðimaðurinn en bráðin og við fylgjum í humátt á eftir hinum liðunum,“ bætti þjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert