Þór/KA marði nýliðana

Signý Lára Björnsdóttir er í stóru hlutverki hjá Aftureldingu.
Signý Lára Björnsdóttir er í stóru hlutverki hjá Aftureldingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þór/KA gerði góða ferð í Mosfellsbæinn þegar liðið hafði nauman 2:1-sigur á nýliðum Aftureldingar í hörkuleik í þriðju umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í dag.

Gestirnir tóku forystuna strax í fyrstu sókn leiksins.

Sandra María Jessen kom boltanum áfram til Tiffany McCarty, hún lék með boltann upp vinstri kantinn, gaf fyrir, leikmönnum Aftureldingar tókst ekki að hreinsa, Vigdís Edda Friðriksdóttir hitti ekki boltann en Sandra María lúrði á fjærstönginni og skilaði boltanum í netið af stuttu færi eftir aðeins 19 sekúndna leik.

Gestirnir að norðan hugðust ganga á lagið og komust nálægt því að tvöfalda forystuna á 11. mínútu. McCarty slapp þá ein í gegn, setti boltann milli fóta Evu Ýrar Helgadóttur í marki Aftureldingar sem náði smá snertingu og þaðan fór boltinn í stöngina og aftur fyrir.

Arna Eiríksdóttir fékk þá gott færi á 17. mínútu rétt fyrir framan markteig eftir að Eva Ýr hafði kýlt hornspyrnu frá en fast skot Örnu fór í varnarmann.

Eftir þetta áhlaup Norðankvenna fóru heimakonur að vinna sig æ betur inn í leikinn og unnu boltann til að mynda oft hátt á vellinum með góðri hápressu.

Á 19. mínútu fékkst fyrsta almennilega færi Mosfellinga þegar Jade Gentile skaut rétt framhjá á fjærstönginni eftir góða fyrirgjöf Hildar Karítasar Gunnarsdóttur af vinstri kantinum.

Á 40. mínútu slapp fyrirliðinn Kristín Þóra Birgisdóttir ein í gegn eftir laglega stungusendingu Þórhildar Þórhallsdóttur en var í litlu jafnvægi þegar hún lét skotið ríða af úr vítateignum og það fór því framhjá markinu.

Aðeins mínútu síðar var hún hins vegar búin að jafna metin fyrir Aftureldingu eftir frábært einstaklingsframta. Hún fékk þá boltann frá Birnu Kristínu Björnsdóttur, lék á hvern varnarmann Þórs/KA á fætur öðrum og skoraði með föstu ristarskoti niður í bláhornið nær.

Staðan því 1:1 í leikhléi.

Í upphafi síðari hálfleiks hélt Afturelding áfram þar sem frá var horfið.

Kristín Þóra komst í dauðafæri á 51. mínútu eftir laglegan sprett og sendingu Gentile en skaut framhjá.

Fimm mínútum síðar slapp Þórhildur ein í gegn en Arna náði að elta hana uppi og komast í veg fyrir skotið í tæka tíð.

Eftir þessa fjörugu byrjun róaðist leikurinn töluvert en á 83. mínútu dró til tíðinda.

Andrea Mist Pálsdóttir tók þá hornspyrnu frá vinstri, hún fór í gegnum pakkann og barst til Örnu sem stýrði boltanum auðveldlega í netið af markteig.

Þar við sat og Þór/KA sigldi naumum sigri í höfn.

Þór/KA er nú komið upp í þriðja sæti deildarinnar með 6 stig en Afturelding er enn í næstneðsta sæti án stiga.

Afturelding 1:2 Þór/KA opna loka
90. mín. Að minnsta kosti þremur mínútum verður bætt við venjulegan leiktíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert