Fyrsti sigur ÍBV

Eyjakonan Þórhildur Ólafsdóttir með boltann í kvöld.
Eyjakonan Þórhildur Ólafsdóttir með boltann í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ágætis mótspyrna KR-kvenna dugði ekki til þegar Eyjakonur mættu í Vesturbæinn í kvöld og unnu 0:2 í efstu deild kvenna í knattspyrnu, Bestu deildinni, en þetta var fyrsti sigur ÍBV í sumar.

Leikurinn fór ekki líflega af stað, frekar að liðin væru að skoða veikleika mótherja, síðan að reyna finna taktik sem dygði til að koma inn marki.   Eyjakonur voru mun öflugri þar og fóru oft upp kantana en KR-ingar voru alveg viðbúnir og fjölmenntu í vörnina, áttu þó í smá basli.   Samt átti KR góðar sóknir og munaði stundum litlu að Vesturbæingar kæmust í gott færi.   Þar voru Olga Sevcova, Sandra Voitane, Viktorija Zaicikova og Ameera Hussen mest í skotunum en oftast fór boltinn örugglega framhjá og fá skot hittu á rammann.    KR átti eitt ágætt færi á 39. mínútur þegar Ásta Kristinsdóttir skallaði stutt frá hægri stönginni en beint í hendur Guðnýjar Geirsdóttur í marki ÍBV.  Svo kom að því að eitthvað sóknum ÍBV gengu upp þegar Viktorija fékk boltann í miðjum vítateig og skaust síðan hnitmiðað í hægri stöngina og í markið. 

Síðari hálfleikur hófst með skyndisókn ÍBV á 47. mínútu en Ameera náði ekki að stýra þversendingu Söndru af stuttu færi í markið og boltinn rétt framhjá.  Á 50. mínútu átti Olga síðan þrumuskot úr miðjum vítateignum en beint á markvörð KR sem hélt boltanum með naumindum.  KR átti sínar sóknir þó þær voru ekki margar, þó fleiri eftir þrefalda skiptingu þegar skerpt var á sókninni en Bergdís  Fanney Einarsdóttir átti þó fast skot á 66. mínútu úr vítateignum en hátt yfir.  Gott samt að láta vaða.  Eyjakonur náðu þó undirtökunum á ný og á 72. mínútu skoraði Kristín Erna Sigurlásdóttir af stuttu færi en frábæra sendingu Viktoriju og staðan 0:2.

Þó KR fengi engin stig og engin mörk í þessum leik mátti þó oft sjá að liðið getur spilað góðan fótbolta, staðið vörnina og byggt upp sóknir með spræka leikmenn fremsta. 

ÍBV var betra liðið, hélt vörninni vel og átti síðan góðar sóknir upp báða kantana svo að oft skapaðist hætta þó mörkin létu bíða eftir sér.    

KR mætir síðan Blikum í næsta leik en Þróttur fer til Eyja.

KR 0:2 ÍBV opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is