Fyrsti sigur Keflvíkinga

Keflvíkingar komust snemma yfir í kvöld þegar Adam Ægir Pálsson, …
Keflvíkingar komust snemma yfir í kvöld þegar Adam Ægir Pálsson, lengst til hægri, skoraði. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Keflavík og Leiknir Reykjavík mættust í kvöld í fimmtu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Fyrir leik sátu Leiknismenn í 10. sæti deildarinnar með tvö stig en Keflvíkingar sátu í neðsta sæti deildarinnar með eitt stig.

Keflvíkingar sigruðu 3:0 og kræktu í sinn fyrsta sigur og eru komnir með fjögur stig en Leiknir situr eftir með tvö stig og hefur aðeins skorað eitt mark í fyrstu fimm leikjum sínum.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust í forustu eftir fjögurra mínútna leik þegar Adam Ægir Pálsson setti boltann snyrtilega í markið, 1:0.

Erfið byrjun fyrir Leiknismenn sem misstu einnig fyrirliðann sinn, Bjarka Aðalsteinsson, útaf eftir markið þar sem hann lenti í árekstri við Viktor Frey markvörð sinn þegar Adam skoraði.

Fyrri hálfleikurinn var mjög fjörugur og áttu bæði lið ágætis færi, Keflvíkingar voru samt sem áður sterkara liðið í fyrri hálfleik.

Keflvíkingar byrjuðu seinni hálfleikinn af sama krafti og þann fyrri og voru búnir að tvöfalda forustu sína þegar sjö mínútur voru búnar af seinni hálfleik, Patrik Johannesen með skot rétt fyrir utan teig sem endaði í markinu.

Keflvíkingar bættu síðan við þriðja  markinu á 81. mínútu þegar Helgi Þór Jónsson skoraði eftir fyrirgjöf frá Patrik Johannesen. 3:0 lokatölur í Keflavík.

Næsti leikur Keflvíkinga er á útivelli gegn KR-ingum mánudaginn 16. maí. Leiknismenn mæta næst Fram á Leiknisvellinum á mánudaginn.

Keflavík 3:0 Leiknir R. opna loka
90. mín. Sindri Þór Guðmundsson (Keflavík) á skot framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert