Höfum oft spilað betur

Arnar Gunnlaugsson segir sínum mönnum til í leiknum í kvöld.
Arnar Gunnlaugsson segir sínum mönnum til í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Þetta var ekki okkar besti leikur“, segir Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslandsmeistara Víkings, en þeir unnu þægilegan heimasigur á Frömurum í kvöld í 5. umferð Bestu deildar karla, en Víkingar skoruðu fjögur mörk á móti einu. 

Arnar segir að lið sitt hafi leikið betur í sumum leikjum á tímabilinu sem þeir hafi samt tapað. „Við vorum þungir, og mér fannst við finna fyrir því að við erum búnir að spila einum leik meira en hin liðin,“ segir Arnar. Víkingar hafi þó átt góðar sóknir inn á milli og náð að klára leikinn þannig. „Þannig að heilt yfir var þetta mjög góður sigur, en spilamennskan ekki góð.“

Staðan í hálfleik var 3:0 fyrir Víkingum og Arnar segir að sér hafi fundist sitt lið vera að spara orkuna í seinni hálfleik. „Það er búið að vera törn núna og við reyndum að fá inn ferskar lappir og breyta til,“ segir Arnar, en hann gerði fjórfalda breytingu á liði sínu í síðari hálfleik.

„En Framararnir eru með vel spilandi lið. Þeir áttu mjög fínan leik á móti Stjörnunni og við vissum að þetta yrði erfiður leikur, en sem betur fer náðum við að klára þetta í fyrri hálfleik og halda haus í seinni,“ segir Arnar.

Þurfa að slípa varnarleikinn

Byrjun Víkinga á Íslandsmótinu hefur verið nokkuð rykkjótt, þar sem þeir hafa náð að svara lélegum úrslitum með góðum sigrum. -En það getur nú ekki verið markmiðið að taka annan hvern leik með trompi? „Nei,“ segir Arnar kíminn á svip. „En við höfum spilað mjög vel lungann af sumrinu,“ segir Arnar og bætir við að Víkingar hafi verið að fá á sig nokkuð af klaufamörkum. „Og við þurfum að laga það ef við ætlum að vera í toppbaráttunni í sumar, eb út á vellinum eigum við auðvelt með að skapa færi og skora mörk, og það er jákvætt,“ segir Arnar. 

Hann segir því að Víkingar þurfi að slípa til varnarleikinn. „Fyrir mér snýst varnarleikurinn um fókus, og við eigum það til að sofna á verðinum í leiknum sjálfum. Við höfum því ekki náð fullum fókus í 90 mínútur.“

Næsti leikur Víkinga er heimaleikur á móti Breiðablik, sem situr nú á toppi deildarinnar með fullt hús stiga. „Blikarnir eru búnir að eiga gott mót og „momentumið“ er með þeim. Við þurfum að stoppa það, og ef við vinnum þá munar bara tveimur stigum. Það er því nóg eftir af þessu móti og það á margt eftir að gerast,“ segir Arnar að lokum.

mbl.is