Ekkert annað í boði

Ásdís Karen Halldórsdóttir og Málfríður Erna Sigurðardóttir eigast við í …
Ásdís Karen Halldórsdóttir og Málfríður Erna Sigurðardóttir eigast við í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ásdís Karen Halldórsdóttir, leikmaður Vals, var afar sátt í samtali við blaðamann mbl.is eftir 2:0 sigur liðsins á Stjörnunni í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í Garðabæ í kvöld. Mist Edvaldsdóttir og Arna Sif Ásgrímsdóttir skoruðu mörk Vals í leiknum með skalla en í bæði skiptin eftir hornspyrnu frá Ásdísi.

Meistararnir unnu í Garðabæ

„Ég er bara mjög sátt með þrjú stig hér í kvöld. Við vörðumst ótrúlega vel og náðum að halda skipulagi virkilega vel. Það var fyrst og fremst það sem skóp þennan sigur á Stjörnunni í kvöld. Það er auðvitað mjög gott að vera með svona góða skallamenn í liðinu eins og Mist og Örnu. Þær geta svo sannarlega klárað leikina fyrir okkur eins og þær gerðu hér í kvöld. Þetta er ótrúlega mikilvægt fyrir liðið. Reyndar eru við með ansi marga leikmenn sem eru góðir í loftinu þannig að við erum mjög hættulegar í föstum leikatriðum. Þetta er gott vopn fyrir okkur. Við hefðum auðvitað viljað hafa unnið alla fjóra leikina í deildinni til þessa en við fengum smá skell fyrir norðan. Við erum búnar að stiga vel upp frá því. Við stefnum bara á það að vinna þá leiki sem eftir eru. Það er ekkert annað í boði,“ sagði Ásdís Karen Halldórsdóttir við blaðamann mbl.is strax eftir leikinn í kvöld.

Breiðablik og Valur eru á toppnum í Bestu deild kvenna í knattspyrnu eftir leiki kvöldsins með níu stig en Selfoss er í þriðja sæti deildarinnar með sjö stig en Selfoss á leik inni en þær mæta liði Þór/KA á Akureyri á morgun.

mbl.is