Meistararnir unnu í Garðabæ

Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir í baráttunni við Ídu Marín Hermannsdóttur í …
Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir í baráttunni við Ídu Marín Hermannsdóttur í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Arnþór

Valur vann 2:0 sigur á Stjörnunni í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld.

Það var Mist Edvaldsdóttir sem skoraði fyrra mark Vals á 25. mínútu leiksins en hún reis hæst eftir hornspyrnu Ásdísar Karenar Halldórsdóttur og skallaði boltann í netið. Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði svo seinna mark Vals á 57. mínútu einnig eftir hornspyrnu frá Ásdísi.

Þessi sigur Vals þýðir að Valur er komið með níu stig eftir fjóra leiki í deildinni en Stjarnan er fjögur stig.

Það var ekki mikið um færi í fyrri hálfleik en það voru helst föst atriði sem voru að skapa hættu á báðum endum vallarins. Sædís Rún Heiðarsdóttir tók nokkrar fyrir Stjörnuna og í flest skiptin skapaðist nokkur hætta. Svo kom auðvitað mark Vals úr hornspyrnu á 25. mínútu leiksins þegar að Mist Edvaldsdóttir skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu Ásdísar Karenar.

Í seinni hálfleik héldu föstu leikatriðin að vera hættuleg, sérstaklega hjá gestunum. Liðin voru ekki skapa sér mörg marktækifæri í opnum leik. Á 57. mínútu fékk Valur hornspyrnu sem Ásdís Karen tók og hún reyndi bara að skora beint úr horninu en Chanté Sandiford náði að slá boltann yfir mark Stjörnunna og því fékk Valur aðra hornspyrnu. Aftur var Ásdís Karen mætt á svæðið og að þessu sinni fann hún Örnu Sif Ásgrímsdóttur á fjarstönginni sem stangaði boltann í netið af stuttu færi. Eftir þetta mark gerðist ekki mikið í leiknum. Valur var meira með boltann en var ekki að skapa sér nein marktækifæri. Ekki frekar en leikmenn Stjörnunnar sem voru ekki sérlega beittir fram á við í kvöld.

Málfríður Erna Sigurðardóttir, leikmaður Stjörnunnar, var í kvöld að spila sinn 400. leik en hún spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki árið 2000. Málfríður spilaði á sínum tíma með liði Vals og Breiðabliks. Hún fékk glæsilegan bláan blómvönd frá Stjörnunni í tilefni dagsins.

Fimmta umferðin í Bestu deild kvenna í knattspyrnu hefst á miðvikudaginn en þá mætir Stjarnan liði Aftureldingar í Mosfellsbæ en Valur á heimaleik gegn KR á fimmtudeginum.

Stjarnan 0:2 Valur opna loka
90. mín. Ída Marín Her­manns­dótt­ir (Valur) fer af velli
mbl.is