Sjálfboðaliðinn frá Ólafsvík sleppur við bann

Brynjar Kristmundsson og Guðjón Þórðarson, þjálfarar Víkinga.
Brynjar Kristmundsson og Guðjón Þórðarson, þjálfarar Víkinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áfrýjunardómstóll Knattspyrnusambands Íslands hefur felt úr gildi bann sem Aga- og úrskurðarnefnd sambandsins úrskurðaði Kristján Ríkharðsson, sjálfboðaliða hjá Víkingi úr Ólafsvík, í á dögunum.

Kristján var úrskurðaður í sex mánaða bann frá afskiptum af fótbolta vegna falsaðrar leikskýrslu þegar liðið mætti ÍR í deildabikarnum, Lengjubikarnum, hinn 26. mars.

Kristófer Daði Kristjánsson var skráður í treyju númer 11 í leiknum en ónefndur leikmaður, sem ekki var kominn með leikheimild með Ólsurum, lék í treyjunni í stað Kristófers.

Niðurstöður áfrýjunardómstólsins:

„Að mati dómsins og á grundvelli almennra lagasjónarmiða skal viðurlagaákvæði það sem er að finna í grein 36.4. skýrt þröngt. Skýr viðurlagaheimild skal vera fyrir hendi þannig að víst megi telja að háttsemi falli undir lýsingu viðurlagaákvæðisins. Í greinargerð áfrýjanda svo og í öðrum gögnum kemur fram að Kristján Björn er hvorki stjórnarmaður né launaður starfsmaður hjá knattspyrnudeild UMF Víkings. Í hinum áfrýjaða úrskurði byggir niðurstaða aga- og úrskurðarnefndar um viðurlög, skv. grein 36.4., á því að Kristján Björn Ríkharðsson, sem skráður var sem forráðamaður hjá liði áfrýjanda í umræddum leik, hafi ritað undir og staðfest innihald leikskýrslunnar. Þannig hafi Kristján borið ábyrgð á innihaldi leikskýrslu er varðar lið áfrýjanda.“

„Það er hins vegar mat dómsins að áður en brot Kristjáns geti verið heimfært undir nefnda grein 36.4. þurfi að skera úr um það hvort hlutverk Kristjáns hjá hlutaðeigandi félagi falli undir það vera hlutverk þjálfara eða forystumanns. Verður ekki ráðið af gögnum málsins að Kristján hafi verið í hlutverki þjálfara hjá hlutaðeigandi félagi né í forystuhlutverki, þrátt fyrir að hafa undirritað leikskýrslu sem forráðamaður hjá liði Víkings Ólafsvíkur. Verður Kristján Björn, sem forráðamaður í umræddum leik, því ekki úrskurðaður í leikbann vegna brots hlutaðeigandi félags, þar sem hlutverk hans og háttsemi fellur ekki ótvírætt undir viðurlagaákvæði greinar 36.4.“

„Með vísan til framangreinds er ákvæði úrskurðar aga- og úrskurðarnefndar um sex mánaða leikbann Kristjáns Björns Ríkharðssonar fellt úr gildi. Úrskurður um sekt knattspyrnudeildar UMF Víkings að upphæð kr. 160.000,- og breytingu á úrslitum í leik Víkings Ólafsvíkur og ÍR þann 26. mars 2022 skal standa óhaggaður.“

Dóminn má lesa í heild sinni hér.

mbl.is