Sóknarleikurinn dapur í dag

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur.
Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflvíkinga, var ekki sáttur með leik síns liðs eftir 1:2-tap gegn Aftureldingu í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Leikurinn var ekki nógu góður, við vorum mikið úr karakter í dag og vorum undir í baráttunni sem við lögðum mikla áherslu á að vera með yfirhöndina í í dag. Það var eiginlega það sem fór með leikinn hjá okkur,“ sagði Gunnar Magnús.

Gunnar sagði að liðið þyrfti að hafa sín einkenni í lagi fyrir næsta leik og bæta sóknarleikinn.

„Við þurfum að hafa okkar einkenni, sem er að berjast og leggja sig fram, hafa það í lagi og svo þurfum við að bæta úr sóknarleiknum.

Hann var allt of dapur í dag, lítið sem við sköpuðum okkur. Það er eitthvað sem við þurfum að vinna í,“ bætti Gunnar við í samtali við mbl.is.

mbl.is