Brenna afgreiddi Þór/KA

Andrea Mist Pálsdóttir og Kristrún Rut Antonsdóttir í baráttu um …
Andrea Mist Pálsdóttir og Kristrún Rut Antonsdóttir í baráttu um boltann í leiknum í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Selfoss er komið í toppsæti Bestu-deildar kvenna á ný eftir leiki dagsins. Selfoss fór norður til Akureyrar til að etja kappi við Þór/KA. Segja má að um toppslag hafi verið að ræða þar sem Selfoss var með 7 stig en Þór/KA með 6 fyrir leikinn. Leikurinn var afar bragðdaufur og fátt um alvöru færi. Selfoss skoraði eina markið úr vítaspyrnu í seinni hálfleiknum. Þar með eru sunnankonur einar á toppnum í deildinni þegar fjórar umferðir eru búnar. 

Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleiknum í dag og nánast engin færi litu dagsins ljós. Kannski voru aðaltíðindi hálfleiksins að þrír leikmenn fóru meiddir af velli, tveir úr liði Þórs/KA og einn hjá Selfyssingum. Það er spurning um hvort grasið á SaltPay-vellinum sér hæft til knattspyrnuiðkunnar.  

Leikmenn hresstust aðeins á seinasta kortéri fyrri hálfleiks og þá voru það Selfyssingar sem fengu tækifæri en Harpa Jóhannsdóttir í marki Þórs/KA varði glæsilega í tvígang. Markalaust var í hálfleik. 

Selfoss var ávallt líklegra liðið til að skora í seinni hálfleiknum og var Brenna Lovera mest ógnandi. Það var einmitt hún sem skoraði eina mark leiksins þegar um kortér var eftir. Selfoss fékk þá vítaspyrnu og að sjálfsögðu afgreiddi Brenna boltann örugglega í netið. 

Sem fyrr segir er Selfoss í toppsætinu en Þór/KA er um miðja deild. 

Þór/KA 0:1 Selfoss opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert