Okkur langar að vera ofarlega og það er planið

Íris Dögg Gunnarsdóttir var frábær í dag
Íris Dögg Gunnarsdóttir var frábær í dag mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íris Dögg Gunnarsdóttir var í stóru hlutverki í kvöld þegar að lið hennar, Þróttur Reykjavík, sótti ÍBV heim á Hásteinsvelli í 4. umferð í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Leiknum lauk með sigri Þróttara, 2:1. Vindasamt var á Hásteinsvelli í kvöld og hafði það mikil áhrif á það hvernig leikurinn spilaðist.

„Planið í dag var að byrja á móti vindi og reyna að halda en það er meira en að segja það, þessi vindur er rosalegur... mér fannst við leysa þetta nokkuð vel og þetta gekk fínt hjá okkur. Við vorum alveg búnar að plana þetta. Við vissum að við vildum fara upp vinstra megin út af vindurinn blés þannig," sagði Íris við mbl.is eftir leikinn.

Mikið var að gera hjá Írisi í fyrri hálfleik þegar að liðið lék á móti vindi og gerði hún virkilega vel og varð frammistaða hennar til þess að ÍBV leiddi bara með einu marki í hálfleik.

„Leyndarmálið er bara reynslan held ég, vera róleg og lesa leikinn sem gekk bara vel hjá mér í dag“.

Vafaatriði átti sér stað í lok fyrri hálfleiks þegar að Olga Sevcoca var felld inn í teig Þróttara og vildi stúkan meina að þetta hefði átt að vera víti en Guðmundur Páll dómari var ekki sammála.

„Nei alls ekki, þetta var meira óp hjá henni heldur en eitthvað annað“.

Aðspurð um muninn á liðunum í dag og ástæðunni á bakvið sigurinn sagði Íris Dögg:

„Aðallega viljinn sem skildi liðin að hér í dag. Þetta er rosalega erfiður heimavöllur og alltaf gaman að koma hingað en okkur langar að vera ofarlega og það er bara planið“.

Næsti leikur Þróttara er á móti Þór/KA á heimavelli þann 18.maí næstkomandi.

„Það er þétt dagskrá þessa dagana og dálítið erfitt að fara af gervigrasi yfir á gras. Það er bara tvennt ólíkt að spila fótbolta á gervigrasi og grasi“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert