„Gott að halda hreinu á þessum velli“ 

Leikmenn Selfyssinga fögnuðu sigri í gær.
Leikmenn Selfyssinga fögnuðu sigri í gær. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Kvennalið Selfyssinga í Bestu deildinni í fótbolta hefur byrjað mótið vel í ár og er á toppi deildarinnar eftir fjórar umferðir. Í gær sótti Selfoss 1:0-sigur til Akureyrar en Þór/KA var þar gestgjafinn. 

Þjálfari Selfoss er Björn Sigurbjörnsson og hann kom í stutt spjall við mbl.is eftir leik. 

„Við vorum búin að skoða lið Þórs/KA vel fyrir leikinn og sáum að það er dugnaður í þessu liði og þær eru bara góðar. Þess vegna þurfti góðan leik og eitthvað sérstakt til að leggja þær. Mér sýndist nú sjálfum að vítið sem við fengum hafi verið ranglega dæmt en verð að vera þakklátur fyrir það. En ég er sáttur við liðið í dag. Baráttuandinn var flottur og gott að halda hreinu á þessum velli.“ 

Já þú vilt meina að vítið hafi ekki átt að dæma. 

„Ég er nú ekki 100% öruggur á því en mér sýndist leikmaður Þórs/KA fara í boltann áður en fætur slengdust saman. Við samstuðið fellur minn leikmaður. En stundum er þetta bara svona og lítið hægt að gera í því.“ 

Byrjunin á mótinu hefur verið góð hjá ykkur. Ætlið þið að halda ykkur við toppinn áfram, áttu von á því? 

„Ég veit það hreinlega ekki. Það er spilað þétt og leikirnir eru tvísýnir. Ég vona að við höldum dampi. Við erum að reyna að bæta liðið og ná betri spilamennsku. Þetta er bara þroskaferli hjá hverjum leikmanni og allir hafa brugðist vel við mínum áherslum. Í dag var allt að ganga smurt og Þór/KA náði ekkert að spila sig í gegn.

Mér fannst varnarleikur liðsins góður. Við erum með fínar færslur í sókninni og þá verða andstæðingarnir kannski þreyttari. Það þarf allskyns atriði í svona leiki og eitt þeirra er þolinmæði. Þetta gekk allt hjá okkur í dag“ sagði Björn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert