Happa og glappa

Steinþór Már Auðunsson markvörður KA varði víti gegn ÍA í …
Steinþór Már Auðunsson markvörður KA varði víti gegn ÍA í kvöld. mbl.is/Þórir Tryggvason

„Ég ver nú einhver víti en þetta er meira svona happa og glappa, maður velur sér horn og stendur við það,“ sagði Steinþór Már Auðunsson markvörður KA sem varði víti á 58. mínútu þegar KA var 0:2 yfir gegn ÍA á Akranesi í dag í efstu deild karla í fótbolta, Bestu deildinni.  Fyrir vikið komust Skagamenn ekki inn í leikinn og urðu loks að játa sig sigraða, 0:3.

KA hefur “aðeins” skorað 11 mörk í deildinni en líka bara fengið á sig tvö. „Mér finnst mjög ljúft að koma hingað uppá Skaga, skora þrjú og halda hreinu því það er nóg að skora eitt ef maður heldur hreinu. Mér finnst liðið svona vera að slípast saman en við viljum gera betur í sumum hlutum í leik okkar en það er ekki hægt að kvarta yfir því hvernig þetta hefur verið.“ 

Fyrir mótið sögðu spekingar að KA yrði um miðja deild enda var hópurinn þunnskipaður á æfingum en þeir eru nú í efsta sætinu.  „Við tökum ekki mark á neinum spádómum um gengi okkar, eins og margoft hefur komið fram í aðdraganda mótsins að við vorum með marga menn í meiðslum en þeir eru koma inn í liðið núna.    Sjálfur byrjaði ég ekki að æfa fyrr en í byrjun janúar og á tímabili vorum við sextán á æfingu, þar af fjórir markmenn svo það segir sig sjálft að það er ekki hægt að gera mikið með fjóra markmenn og tólf útispilara,“  bætti vítabaninn við.   

 Hugsaði bara um að negla boltanum

Daníel Hafsteinsson kom KA á blað með þrumuskoti af vítateigslínunni þegar hann skoraði fyrsta mark liðsins.  „Ég hugsaði bara um að negla boltanum á markið, það var góður meðvindur svo það varð bara að hitta og það gekk upp.   Það að var aðeins mótvindur þegar ég fékk eins færi í seinni hálfleik og ætlaði að þruma bara á markið en það var smá mótvindur og jörðin var aðeins fyrir mér  Þetta gengur víst ekki alltaf upp,“ sagði Daníel, ánægður með lið sitt. „Mér finnst liðið allt að koma til, það vantar aðeins uppá en við erum alveg að komast í stand. Það hefur vantað einhverja í hópinn hjá okkur og geggjað fá nú inn leikmenn, sem voru í stórum hlutverkum í fyrra.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert