Svekkjandi fyrir Valsmenn að fá þetta í andlitið

Ágúst Gylfason á hliðarlínunni í kvöld.
Ágúst Gylfason á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, var ansi kátur í leikslok í samtali við blaðamann mbl.is en Stjarnan vann Val 1:0 í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld en sigurmarkið kom á lokamínútu leiksins.

„Þetta var ansi ljúft. Gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að klára þetta svona fyrir framan okkar fólk. Svo gott að fá stuðningsmennina með okkur hérna á heimavelli. Þetta er fyrsti sigur okkar á heimavelli, búnir að gera tvö jafntefli þannig að það var alveg ótrúlega að fá svona sigur í blálokin. Mjög dýrmætt og mikill karakter í okkar liði. Það var frábært að halda hreinu í kvöld. Náðum því líka á móti Leiknismönnum.

Það er bara þannig að þessir 1:0 sigrar eru svo sætir og hvað þá þegar sigurmarkið kemur svona í lokin. Þetta er pottþétt svekkjandi fyrir Valsmenn að fá þetta í andlitið en svona er þetta stundum. Halli var flottur í kvöld, hann er okkar fyrirliði og með Stjörnuhjarta sem skín og átti flottan leik og hélt hreinu ásamt reyndar öllu liðinu. Varnavinna liðsins var til fyrirmyndar.

Við sköpuðum okkur vissulega eitthvað af færum en í lokin var þetta frábærlega vel gert hjá varamönnunum sem komu inn á, Óskar og Oliver. Þetta snýst um það að vera með góða breidd og liðsheildin er góð. Við erum allir á sömu vegferð, það er það sem skiptir máli. Það er mikið Stjörnuhjarta í þessu liði og við sáum líka það hjá stuðningsmönnum Stjörnunnar í kvöld. Alveg frábær stuðningur í kvöld og við viljum svo sannarlega taka þennan stuðning með okkur í framhaldið.

Næsti leikur er gegn KA á Dalvík og það er á hreinu að það verður erfiður leikur. KA eru vel mannaðir, eru mjög þéttir og eru að skora mörk líka. Þetta verður góð prófraun fyrir okkur að fara til Dalvíkur og spila á móti KA sem er auðvitað á toppnum þessa stundina. Við erum á þessari vegferð og erum að máta okkur við þessi topplið eins og KA. Þetta verður mjög fróðlegt að sjá,“ sagði Ágúst Gylfason að lokum við blaðamann mbl.is í Garðabænum í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert