Verðum að vera góðir í níutíu mínútur en ekki nokkrum tíu mínútna köflum

Árni Snær Ólafsson markvörður og fyrirliði ÍA í kröppum dansi.
Árni Snær Ólafsson markvörður og fyrirliði ÍA í kröppum dansi. mbl.is/Hari

„Mér fannst þetta súrt, þeir eitt-núll yfir í hálfleik, sem var kannski sanngjarnt því þeir náðu að þrýsta okkur aftar og við gerðum ekki nógu vel svo þeir ná að skora gott mark,“  sagði Árni Snær Ólafsson markmaður og fyrirliði ÍA eftir 0:3 tap fyrir KA þegar liðin mættust á Skipaskaga í 6. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu, Bestu deildinni, í dag.  

„Svo fannst mér við koma góðir inn í seinni hálfleik, það leið smá tími þar til þeir ná að skora annað mark sitt en þriðja markið drap svo leikinn.  Við hefðum getað gert miklu betur á mörgum stöðum.“

Skagamenn hafa ekki farið út úr þremur leikjum, tapað en að auki fengið á sig 12 mörk en skorað eitt og fyrirliðinn er ekki sáttur.  „Ég held að sé bara lélegt hjá öllum.  Við höfum bara skorað eitt mark en fengið á okkur einhver helvítis tíu, tólf, fimmtán mörk eða eitthvað.  Ég held að við  höfum bara verið lélegir á báðum helmingum vallarins en allir eiga að hjálpast að um allan völl.  Við erum nú bara að fara til Eyja á laugardaginn og ná i þrjú stig, það er alveg öruggt.  Við þurfum þá reyndar að spila vel í níutíu mínútur, ekki bara vel í nokkrum tíu mínútna köflum en detta þess á milli niður.   Í dag gekk vel þar til KA skorar þriðja mark sitt því þá fór hausinn á okkur niður í bringu.   Það á bara að fara upp með hausinn og  málið er að ná að tengja góðar mínútur - það er planið hjá okkur,“ sagði fyrirliðinn ákveðinn.

mbl.is