Blikar aftur á toppinn eftir auðveldan sigur á Íslandsmeisturunum

Blikar fagna öðru marki Jasons Daða Svanþórssonar í Fossvoginum í …
Blikar fagna öðru marki Jasons Daða Svanþórssonar í Fossvoginum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik heldur áfram frábæru gengi sínu í Bestu deildinni í knattspyrnu karla. Í kvöld heimsótti liðið Íslandsmeistara Víkings úr Reykjavík, vann öruggan 3:0-sigur og kom sér þannig aftur í efsta sæti deildarinnar þar sem liðið er með fullt hús stiga.

Fyrri hálfleikur var afar tíðindalítill.

Kristinn Steindórsson fékk besta færi fyrri hálfleiks á 25. mínútu. Þá sóttu Blikar hratt, Ísak Snær Þorvaldsson komst í góða stöðu, lagði boltann til hliðar á Kristin Steindórsson sem skaut að marki nýkominn inn í vítateig en skotið fór af varnarmanni og aftur fyrir.

Erlingur Agnarsson fékk besta færi Víkings í hálfleiknum. Pablo Punyed átti þá frábæra fyrirgjöf, Erlingur náði skallanum en hann fór í Davíð Ingvarsson, krafturinn því úr skallanum og þaðan hafnaði boltinn í fangi Antons Ara Einarssonar í marki Breiðabliks.

Markalaust var því í leikhléi.

Síðari hálfleikurinn hófst á hinn bóginn með látum. Strax á fyrstu mínútu hans átti Dagur Dan Þórhallsson Jason Daða Svanþórsson hægra megin í teignum, hann tók þrumuskot með jörðinni en það fór í utanverða fjærstöngina.

Strax í næstu sókn átti Nikolaj Hansen hættulegan skalla eftir laglega fyrirgjög Punyed úr aukaspyrnu af vinstri kantinum en Anton Ari varði vel.

Á 56. mínútu kom svo fyrsta mark leiksins.

Oliver Sigurjónsson lyfti þá boltanum á Jason Daða, hann lyfti honum yfir Ingvar Jónsson í marki Víkings sem var farinn í skógarhlaup, skot Jasons Daða fór rétt framhjá markinu en þó ekki aftur fyrir endamörk, Ísak Snær Þorvaldsson gafst ekki upp, náði til boltans í grennd við fjærstöngina og skilaði honum svo í netið af stuttu færi, hans sjöunda mark í sjötta leik sínum í deildinni á tímabilinu.

Á 69. mínútu fékk Kyle McLagan frítt skallafæri eftir hornspyrnu Kristals Mána Ingasonar en fastur skalli hans fór yfir markið.

Skömmu síðar tvöfölduðu gestirnir svo forystu sína. Anton Ari sparkaði þá langt fram, Viktor Örlygur Andrason, sem hafði komið inn á sem varamaður í miðja vörn Víkings eftir að Oliver Ekroth meiddist, skallaði þá boltann yfir Ingvar sem var kominn langt út úr marki sínu, Jason Daði beið átekta fyrir aftan þá, þakkaði pent fyrir sig og renndi boltanum í autt netið.

Aðeins þremur mínútum síðar kom þriðja markið. Blikar léku þá stórkostlega sín á milli þar sem Oliver og Dagur Dan tóku þríhyrning, Oliver kom boltanum á Jason Daða sem renndi honum til hliðar á Kristin sem skrúfaði boltann óaðfinnanlega upp í fjærhornið. Stórglæsilegt mark sem kom eftir 13 sendingar á milli Blika og staðan því orðin 3:0.

Í blálokin fékk Kristall Máni beint rautt spjald fyrir að gefa Davíð Ingvarssyni olnbogaskot þegar boltinn var hvergi nærri. Í þann mund var svo flautað til leiksloka og öruggur þriggja marka sigur Blika niðurstaðan.

Það þýðir að Breiðablik er nú á toppi Bestu deildarinnar með fullt hús stiga, 18 stig, eftir sex leiki.

Víkingur fer með ósigrinum niður í 6. sæti deildarinnar og er búið að tapa þremur af sjö leikjum sínum á tímabilinu, einum fleiri en á öllu síðasta tímabili þegar liðið stóð uppi sem Íslandsmeistari.

Blikar nýttu sér mistökin

Fram að fyrsta marki leiksins höfðu bæði lið fengið afar fá opin færi.

Það sem helst skildi á milli í leiknum í kvöld var að Blikar þvinguðu fram og nýttu sér afar vel mistök Víkinga í síðari hálfleik. Ingvar fór í tvígang í skógarhlaup í fyrri tveimur mörkunum og í bæði skiptin skoruðu Blikar, en það er þó ekki þar með sagt að hann hafi einn gert mistök í þeim, sérstaklega ekki í öðru markinu sem skrifast fyrst og fremst á Viktor Örlyg.

Auk þess var þriðja markið til marks um gífurleg gæði í herbúðum gestanna þar sem glæsilegt spil endaði með mögnuðu marki Kristins.

Vörn Blika var þá einstaklega þétt með miðverðina Damir Muminovic og Viktor Örn Margeirsson í broddi fylkingar og Anton Ara öryggið uppmálað fyrir aftan. Oliver varði þá vörnina fyrir framan þá í varnartengiliðnum með glans.

Útlitið er afar gott fyrir Blika um þessar mundir enda halda þeim engin bönd í upphafi tímabil. Mótið er vissulega langt en þeir grænklæddu virðast áfjáðir í að vinna sinn annan Íslandsmeistaratitil í sögunni eftir að hafa endað einu stigi á eftir Víkingi á síðasta ári.

Víkingur R. 0:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Mikkel Qvist (Breiðablik) kemur inn á +1
mbl.is