Fannst við eiga eitthvað skilið

Rúnar Þór Sigurgeirsson í háloftabaráttu.
Rúnar Þór Sigurgeirsson í háloftabaráttu. Ljósmynd/Víkurfréttir/Hilmar

„Þeir skora og við ekki,“ sagði svekktur Rúnar Þór Sigurgeirsson, leikmaður Keflavíkur, í samtali við mbl.is eftir 0:1-tap liðsins á útivelli gegn KR í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

„Þeir voru meira með boltann í fyrri hálfleik en voru ekki að skapa sér neitt hættulegt. Það var jafnræði með liðunum og þetta var heilt yfir jafn leikur.

Okkur vantaði að betri færi. Við vorum að fá einhver færi en engin dauðafæri. Við vorum óheppnir. Við vorum að standa í þeim og mér fannst við eiga eitthvað skilið úr þessum leik en stundum er þetta svona,“ bætti Rúnar við.

Spilamennska Keflavíkur í undanförnum leikjum hefur verið betri en í upphafi móts, en það dugði ekki til sigurs í kvöld. „Þetta var töluvert betra en í fyrstu leikjunum þar sem við vorum að fá þrjú mörk eða meira á okkur í hverjum einasta leik sem er ekki nógu gott. Þá er erfitt að vinna fótboltaleiki.“

Magnús Þór Magnússon, fyrirliði Keflavíkur, fór meiddur af velli í fyrri hálfleik. Rúnar og félagar stóðu vörnina vel þrátt fyrir það áfall. „Við vissum fyrir leikinn að hann væri tæpur. Þegar Sindri kemur inn á var þetta sama varnarlína og spilaði á móti Leikni. Mér fannst þetta ganga þokkalega og þeir fengu ekki mörg færi,“ sagði Rúnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert