Gert mikið fyrir mann andlega

Finnur Tómas Pálmason átti fínan leik í kvöld.
Finnur Tómas Pálmason átti fínan leik í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Þetta var skrítinn leikur,“ sagði miðvörðurinn Finnur Tómas Pálmason í samtali við mbl.is eftir 1:0-sigur hans og liðsfélaga hans í KR gegn Keflavík á heimavelli í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

„Við bjuggumst við að þeir væru aftar á vellinum en þeir mættu okkur. Það tók okkur of langan tíma að komast 100 prósent inn í leikinn en mér fannst við eiga þetta skilið, þótt þeir hafi fengið einhver færi.

Tilfinningin í hálfleik var góð. Við töluðum um að missa okkur ekki og missa ekki einbeitinguna sem lið. Við þurftum að gefa okkur tíma og spila boltanum. Þá dettur þetta bara, eins og gerðist í þessum leik,“ sagði Finnur.

Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði sigurmark KR í seinni hálfleik, skömmu eftir að hann kom inn á sem varamaður. Var markið það fyrsta sem KR skorar á heimavelli í sumar.

„Þetta hefur verið smá vesen á heimavelli, sem á alls ekki að vera. Í dag er mér alveg sama hvort við vinnum 1:0 eða 3:0. Þrjú stig eru þrjú stig og ég er mjög sáttur,“ sagði hann.

Keflavík sótti nokkuð undir lok leiksins en KR-ingar héldu út. „Það er eðlilegt þegar þú ert yfir að setjast aðeins meira og hitt liðið fer að taka sénsa. Við erum öllu vanir og mér leið ekki illa, en auðvitað er skjálfti í manni þegar þeir bomba boltanum fram og við erum að elta.“

Eftir hæga byrjun á mótinu hefur KR nú unnið tvo leiki í röð. „Það er alltaf góð stemning í klefanum okkar og hvort sem við vinnum eða töpum styðjum við alltaf hvor annan. Auðvitað er samt skemmtilegra að vinna og það gerir hvern dag betri. Síðustu tveir sigrar hafa gert mikið fyrir mann andlega,“ sagði Finnur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert