Högg fyrir lið sem sér fram á að hlutirnir séu ekki að ganga upp

Arnar Gunnlaugsson var svekktur eftir leik í kvöld.
Arnar Gunnlaugsson var svekktur eftir leik í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari ríkjandi Íslandsmeistara Víkings úr Reykjavík sýtti klaufalegan varnarleik liðsins þegar liðið tapaði 0:3 á heimavelli fyrir Breiðabliki í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Fyrst og fremst eru þetta gríðarleg vonbrigði, þetta var alls ekki 3:0-leikur. Mér fannst við vera með undirtökin á leiknum alveg þangað til við fengum á okkur þessi klaufamörk, tvö fyrstu. Þetta riðlast allt til þegar við missum hafsent og allt fer í tómt tjón,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is eftir leik.

Miðvörðurinn Oliver Ekroth meiddist þegar Ísak Snær Þorvaldsson kom Breiðabliki yfir á 56. mínútu og kom Viktor Örlygur Andrason inn á í hans stað.

„Frammistaðan var fín upp að vissu marki en svo í stöðunni 2:0 erum við farnir að elta leikinn og erum aðeins opnari til baka en fyrst og fremst var þetta bara skrítinn leikur á móti Blikunum. Við erum ekki vanir að sjá svona leik þar sem þeir liggja vel til baka, eru þéttir og beita skyndisóknum.

Það má alveg færa rök fyrir því að við náum ekki að opna þá nægilega vel, við fengum svo sem engin dauðafæri en við fengum samt einhver færi fannst mér og tækifæri til að gera betur í ákveðnum leikstöðum,“ bætti Arnar við.

Barnalegt hjá svona reynslumiklu liði

Annað markið, sem Jason Daði Svanþórsson skoraði á 73. mínútu, kom eftir hræðileg mistök Viktors Örlygs þegar hann skallaði yfir Ingvar Jónsson markvörð Víkinga, sem var kominn langt út úr marki sínu.

„Fyrsta markið fannst mér líka hrikalega klaufalegt, það kemur eftir innkast og við töldum einhvern veginn vitlaust, sem er mjög barnalegt hjá svona reynslumiklu liði. Ég veit ekki hvort það hafi verið brot eða ekki en svo fer Ekroth út af og þá kemur Viktor inn. Viktor stóð sig vel og er frábær í fótbolta en svo sérðu svona augnablik eins og þegar markið kemur og það er bara ekki nægilega gott ef ég á að segja alveg eins og er.

Auðvitað er þetta högg í magann fyrir lið sem ætlar sér langt og sér einhvern veginn fram á það að þetta sé ekki alveg að ganga upp í sumar. Þetta er búið að vera svolítið þannig að við erum búnir að spila vel en ekki búnir að fá mikið út úr því,“ sagði Arnar einnig.

Búið að vera bras

Víkingur hefur nú tapað þremur af fyrstu sjö leikjum sínum í deildinni eftir að hafa aðeins tapað tveimur í 22 leikjum þegar liðið varð Íslandsmeistari í fyrra. Arnar sagði það vitanlega vera högg fyrir ríkjandi Íslandsmeistara.

„Já auðvitað. Þetta eru búin að vera mjög skrítin töp öll sömul. Ég sá tölfræðina úr öllum þessum þremur leikjum og þetta eru mjög óvanaleg töp. Öll liðin eru einhvern veginn farin að liggja mjög lágt á móti okkur og eru að bíða eftir mistökum. Þá þurfum við bara að vera aðeins stærri og lesa betur í þá leiki.

Það er erfitt að verjast þegar þú ert mikið með boltann og svo missirðu boltann á hættulegum stöðum og ert að fá á þig „transition,“ það er þess vegna sem bestu varnarmennirnir eru leikmenn sem spila vel úr þannig stöðum. Þetta er búið að vera bras, Pablo [Punyed] búinn að vera meiddur og þetta er ekki það sem við þurfum á að halda núna,“ sagði Arnar að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert