KR-ingar upp fyrir meistarana

Adam Ægir Pálsson og Atli Sigurjónsson eigast við í Vesturbænum …
Adam Ægir Pálsson og Atli Sigurjónsson eigast við í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR hafði betur gegn Keflavík, 1:0, á heimavelli í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. KR fór upp í fimmta sætið og í tíu stig með sigrinum. Þar sem Víkingur úr Reykjavík tapaði fyrir Breiðabliki höfðu KR-ingar sætaskipti við Íslandsmeistarana.

Lítið var um færi í fyrri hálfleik. Keflavík varðist mjög vel og KR-ingum gekk illa að skapa sér opin færi. Keflavík komst næst því að skora þegar Adam Ægir Pálsson átti lúmskt skot í stöngina á 27. mínútu.

Kennie Chopart fékk besta færi KR-inga um miðjan hálfleikinn en Sindri Kristinn Ólafsson varði vel frá honum úr frekar þröngu færi.

Ivan Kaliuzhnyi fékk gott færi á 55. mínútu þegar Grétar Snær Gunnarsson átti hræðilega sendingu til baka en Beitir Ólafsson í marki KR-inga var snöggur út úr markinu, lokaði vinklinum, og varði vel. Hinum megin gekk KR-ingnum bölvanlega að skapa sér færi og þurfti Sindri Kristinn lítið að gera í markinu.

Það breyttist á 67. mínútu þegar Færeyingurinn Hallur Hansson átti fyrirgjöf hægra megin í teignum og Þorsteinn Már Ragnarsson, sem var nýkominn inn á sem varamaður, skallaði í netið af stuttu færi og kom KR-ingum yfir.

Þorsteinn er nýkominn til KR á nýjan leik og var markið það fyrsta sem hann skorar fyrir Vesturbæjarliðið frá árinu 2015. Var hann aðeins búinn að vera á vellinum í sjö mínútur þegar hann skoraði. 

Helgi Þór Jónsson fékk glæsilegt færi til að jafna á 82. mínútu en hann stýrði boltanum hárfínt framhjá fjærstönginni úr teignum eftir flotta fyrirgjöf frá varamanninum Sindra Þór Guðmundssyni. Nær komst Keflavík hinsvegar ekki og KR-ingar fögnuðu öðrum sigrinum í röð. 

KR 1:0 Keflavík opna loka
90. mín. Rúnar Þór Sigurgeirsson (Keflavík) á skot sem er varið Skemmtilegt skot á lofti en nokkuð beint á Beiti sem heldur vel. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is