Öruggt hjá Haukum og FH

Haukar og FH tryggðu sér bæði sæti í 16-liða úrslitum …
Haukar og FH tryggðu sér bæði sæti í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafnarfjarðarliðin Haukar og FH tryggðu sér í kvöld sæti í 16-liða úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu, Mjólkurbikarsins, með öruggum sigrum í 2. umferð keppninnar.

Haukar heimsóttu Augnablik á Kópavogsvöll og höfðu að lokum 4:1-sigur.

Gestirnir keyrðu hreinlega yfir heimakonur á fyrsta hálftímanum þar sem staðan var orðin 4:0 eftir aðeins 29 mínútna leik.

Keri Birkenhead skoraði í tvígang og þær Þórey Björk Eyþórsdóttir og Rakel Leósdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Í síðari hálfleik minnkaði Þyrí Ljósbjörg Willumsdóttir með marki úr vítaspyrnu en nær komust Augnablikar ekki.

Þyrí Ljósbjörg er yngri systir Willums Þórs og Brynjólfs Willumssona og dóttir Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra.

FH vann þá öruggan 6:0-sigur á nágrönnum sínum í ÍH á Kaplakrikavelli í kvöld.

Elín Björg Norðfjörð Símonardóttir og Sigríður Lára Garðarsdóttir skoruðu báðar tvennu fyrir FH og Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir og Shaina Ashouri skoruðu sitt markið hvor.

Í 16-liða úrslitunum fara Haukar norður og mæta Þór/KA. FH fær þá Stjörnuna í heimsókn.

mbl.is